Björn ósáttur við Bolla og Bylgjuna: „Viðbjóður. Algjör viðbjóður“

„Viðbjóður. Algjör viðbjóður. Bolli Kristinsson og Bylgjan,“ segir Grindvíkingurinn Björn Birgisson á Facebook-síðu sinni.

Björn vísar þarna í vægast sagt athyglisverða auglýsingu sem heyrst hefur í útvarpinu, Bylgjunni til dæmis, undanfarna daga frá Bolla Kristinssyni.

„Bolli þessi ryður út úr sér hatursáróðri og lygaþvaðri og Bylgjan þiggur peninga fyrir að útvarpa viðbjóðnum um land allt,“ segir Björn en í auglýsingunni er meðal annars fullyrt að Samfylkingin hafi látið bera 15 til 20 þúsund fjölskyldur úr húsum sínum og ekki færri grátandi börn.

Þá eru hlustendur hvattir til að kjósa ekki Samfylkinguna sama hvað. Hún hafi þegar eyðilagt miðbæ Reykjavíkur og ekki megi láta hana eyðileggja landið allt. Er þarna vísað til þingkosninganna sem fara fram í haust.

Björn segir að fullyrðingar Bolla, annars vegar um að Samfylkingin hafi látið bera allar þessar fjölskyldur úr húsum sínum og hins vegar að Dagur B. Eggertsson sé búinn að eyðileggja miðbæ Reykjavíkur eigi ekki við rök að styðjast.

„Hvort tveggja hatursáróður og lygaþvættingur af verstu gerð! Að Bylgjan skuli hafa geð í sér til að birta þennan viðbjóð gerir ráðamenn stöðvarinnar að sama viðrinisógeðinu og þessi Bolli virðist vera. Viðbjóður. Algjör viðbjóður!“