Björn Leví svarar Sigmundi um Black Lives Matter: Notar „kyndil mál­frels­is sem bar­efli í póli­tísk­um til­gangi“

28. júlí 2020
14:34
Fréttir & pistlar

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, skrifar um öfgar í pistli í Morgunblaðinu í dag. Hann gerði það einnig í síðasta pistli sínum í Mogganum og ræddi þar ósvífni pólitísks rétttrúnaðar og hvernig öfgar hafa þróast hvorar í sína áttina frá upphaflegu markmiði; annars vegar í átt þar sem ekki má gagnrýna neitt og hins vegar í átt þar sem málfrelsið er notað sem „skálkaskjól fyrir fasisma“. Í dag gerir hann nýleg skrif Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns Miðflokksins, um Black Lives Matter hreyfinguna, að sínu umfjöllunarefni og segir Björn Leví meðal annars í svari sínu að: „Vanda­málið er að það hent­ar ekki þeim sem vilja byggja póli­tík sína á að jaðar­setja minni­hluta­hópa og þau berj­ast á móti því að þurfa að sýna slíka til­lits­semi.“

„Ég nefndi ný­legt dæmi um brand­ara sem byggðu á ras­isma og þá gagn­rýni sem kom í kjöl­farið. Ein staðhæf­ing sem kom fram í umræðunni var að „ras­ismi er aldrei í lagi, sama í hvaða formi hann birt­ist!“. Þetta er rangt og er dæmi um öfg­ar í póli­tísk­um rétt­trúnaði. Það er hægt að segja rasíska brand­ara, það geta það hins veg­ar ekki all­ir. Fæst­ir meira að segja. All­ir geta auðvitað reynt og bera bara ábyrgð á eig­in mis­tök­um,“ skrifar Björn Leví.

„Síðan ég skrifaði síðasta pist­il birt­ist nýtt dæmi, um hinar öfgarn­ar. Í ný­legri grein í Morg­un­blaðinu skrifaði formaður Miðflokks­ins um nýju menn­ing­ar­bylt­ing­una. Þar skrif­ar hann að mark­mið nýju bylt­ing­ar­inn­ar sé að flokka beri fólk eft­ir lit­brigðum húðar­inn­ar,“ segir hann svo.

„Hann hef­ur rétt fyr­ir sér að það er í gangi þetta öfga­vanda­mál sem ég fór yfir í mín­um síðasta pistli en hann virðist ekki átta sig á því að þær skoðanir sem hann viðrar í grein­inni sinni eru hluti af vanda­mál­inu.“

Björn segir að markmið þessarar menningarbyltingar sé ekki að flokka fólk eftir húðlit heldur að þvert á móti sé verið að benda á að það sé enn verið að flokka fólk eftir húðlit. „Það er bein­lín­is sagt ósatt, að minnsta kosti án þess að geta heim­ilda, um mark­mið hreyf­ing­ar­inn­ar. Þetta geta all­ir kynnt sér sjálf­ir með því að finna op­in­ber­ar yf­ir­lýs­ing­ar viðkom­andi hreyf­inga. Hvergi er hægt að finna staf­krók um að flokka skuli eft­ir húðlit nema í grein Sig­mund­ar,“ segir þingmaðurinn.

„Mark­mið póli­tísks rétt­trúnaðar var að við ætt­um að sýna minni­hluta­hóp­um og þeim sem geta ekki varið sig ákveðna til­lits­semi. Vanda­málið er að það hent­ar ekki þeim sem vilja byggja póli­tík sína á að jaðar­setja minni­hluta­hópa og þau berj­ast á móti því að þurfa að sýna slíka til­lits­semi. Þau bera upp kyndil mál­frels­is sér til varn­ar á sama tíma og þau vilja skerða frelsi minni­hluta­hópa. Þau nota kyndil mál­frels­is sem bar­efli í póli­tísk­um til­gangi og þau lemja og lemja þangað til það er lamið til baka. Þá stökkva þau til og væla yfir því að þau séu beitt of­beldi af hóp­un­um sem þau jaðar­settu.“

Björn segir þá að baráttan sé gegn valdi og jaðarsetningu og fyrir jafnrétti. „Við get­um verið ósátt við bar­áttuaðferðirn­ar en eng­inn ætti að geta verið á móti mark­miðinu því rétt­indi minni­hluta­hópa eru rétt­indi okk­ar allra. Jaðar­setn­ing sumra verður að lok­um jaðar­setn­ing allra nema þeirra sem ráða. Eða eins og Niemöller orðaði það; svo komu þau á eft­ir mér og þá var eng­inn eft­ir til þess að and­mæla,“ segir hann.