Björn Leví beinir spjótum sínum að Þórólfi og Svandísi: „Gjöra svo vel að rökstyðja ákvörðun sína mjög vel“

„Ef sóttvarnalæknir og stjórnvöld ætla því að fara að taka einhverjar ákvarðanir um takmarkanir - þá þurfa þau að gjöra svo vel að rökstyðja ákvörðun sína mjög vel,“ segir Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, í færslu á Facebook. Hann segir að gögn frá Bretlandi og Spáni sýna að líklegasta sviðsmyndin sé að álag á spítala verði svipað og í fyrri bylgjum Covid-19 en dauðsföll verði mun færri.

Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir sagði á fundi Almannavarna í morgun að hann hefði engin gögn erlendis frá um hlutfall bólusettra sem hafi þurft að leggjast inn á sjúkrahús vegna veikinda eða látið lítið. „Þeir hafa ekki sjálfir gefið það út þannig að við getum ekki nálgast þær upplýsingar. Það eru upplýsingar að koma um aukningu á alvarlegum sjúkdómseinkennum. Ég held að það sé ekki rétt að miða við dauðsföll. Það er bara lítill hluti sem deyr en það er stór hluti sem veikist alvarlega án þess að deyja,“ sagði hann.

Björn Leví segir að hann skilji vel að stjórnvöld vilji sýna varfærni þangað til gögnin verði skýrari. Hann beinir spjótum sínum að Þórólfi og Svandísi Svavarsdóttur heilbrigðisráðherra.

„En hvers konar varfærni það væri skiptir líka máli. Ég hef áhyggjur af því að ákvarðanir sem verði teknar núna séu of litaðar af fyrri reynslu okkar af þessum faraldri en ekki breyttum aðstæðum vegna bólusetninga. Ég myndi allavega vilja sjá alvöru rökstuðning fyrir bæði ákvörðun um takmarkanir og ákvörðun um engar takmarkanir - og allt þar á milli,“ segir Björn Leví.

„Ég býst hins vegar ekki við miklu, við höfum aldrei fengið slíkar skýringar áður. Ég býst því enn og aftur við órökstuddum aðgerðum (eða aðgerðaleysi). Stjórnvöld skulda þjóðinni útskýringar. Ekki rellu um stuðning við aðgerðir en efasemdir um tilgang þeirra eins og síðustu ákvarðanir voru.“