Björn kveður sjoppuborgaragrillið og baunar á Barion: „Straumlínulagað drasl“

„RIP Samkaup/Krambúðin á Laugarvatni. Mjög leiðinlegt að segja frá því að Barion úr Reykjavík er að taka yfir eitt besta sjoppuborgaragrill landsins, sem hefur þjónað þjóðinni um áratugaskeið. Ein mesta okurverslun, en eitt besta grillið. (staðfest),“ segir Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi Krabbameinsfélagsins og hamborgaraáhugamaður, í færslu á Matartips! á Facebook.

Hann segir mikinn söknuð af grillinu á Laugarvatni.

„Bara fyrir mánuði vorum við að tala um topp 10 bestu sjoppufranskar landsins, í bréfpoka, með böns af kartöflukryddi og kokteill frá Nonna litla. Nú er skammturinn helmingi minni, kryddað með borðsalti, í pappakassa eftir einhverjum hipstera-reglum að sunnan. Hamborgari ekki lengur borinn fram í klassísku álpappírs-pappadrullunni, nú í pappírskassa.“

Björn segir að hann sé sorgmæddur yfir þróuninin:

„Vil svosum ekkert vera að hneykslast, meira sorgmæddur að við séum að láta þessi menningarverðmæti hverfa, með einum staðnum af öðrum, og í staðinn kemur eitthvað straumlínulagað drasl hannað af markaðssérfræðingi sem allir fengu ógeð af árið 2017.“

Það eru ekki allir sammála honum, Dagbjartur nokkur segir: „Vá hvað ég er ánægður með að vegaborgarinn sé að hverfa. Það er fátt verra. Fagna því að það sé kominn einhver metnaður í matarmálin í vegasjoppum landsins.“

Hafsteinn nokkur segir að enn séu til sjoppuborgarar: „Jolli i Hafnarfirði er síðasta vígi sjoppuborgarans á Höfuðborgarsvæðinu. Gellunesti, Leirunesti og Veganesti á Akureyri halda þessu enn í heiðri.“