Björn Ingi um nagla­dekkin: Borgar­full­trúar í 101 virðast sjaldan fara upp fyrir Elliða­árnar

„Enn á ný er hafin her­ferðin gegn nagla­dekkjunum sem or­saka eiga svif­ryksmengun í borg þar sem götur eru varla þrifnar mánuðum saman,“ segir Björn Ingi Hrafns­son, rit­stjóri Viljans, í pistli á Face­book-síðu sinni.

Nú er kominn sá árs­tími að and­stæðar fylkingar, annars vegar sú sem talar fyrir notkun nagla­dekkja og hins vegar sú sem talar gegn henni, skiptast á skoðunum. Björn Ingi til­heyrir fyrri hópnum.

Sjá einnig: Gísli Marteinn með særindi í hálsi vegna svifryks

„Borgar­full­trúar, bú­settir í 101, botna ekkert í því að naglar séu settir á dekk, enda virðast þeir sjaldan fara upp fyrir Elliða­árnar eða keyra bíla yfir­höfuð. Við sem búið höfum í Selja­hverfi eða efri byggðum Breið­holts, Árbæ, Grafar­vogi eða Grafar­holti vitum hins vegar að oft verða göturnar þar svo hálar að varla er hægt að komast á­fram nema á negldum hjól­börðum,“ segir Björn Ingi og bætir við að þetta eigi líka við í mörgum hverfum Kópa­vogs, Garða­bæjar og Mos­fells­bæjar.

„Þetta vita líka þær þúsundir öku­manna sem búa fyrir austan fjall eða á Vestur­landi og sækja vinnu eða aðra þjónustu til höfuð­borgarinnar. Það er alveg sjálf­sagt að sem flestir séu á góðum heils­árs­dekkjum eða vetrar­dekkjum án nagla, en stað­reyndin er að margir þurfa á þeim að halda öryggisins vegna,“ segir Björn Ingi og bætir við að þess vegna sé ekki hægt að banna nagla­dekk.

„Nema hita þá til­teknar götur bæjarins upp og sömu­leiðis helstu þjóð­vegi í ná­grenni höfuð­borgarinnar. Já eða fara að þrífa göturnar og gang­stéttirnar al­menni­lega, því það er ekki síst tjaran á götunum sem fer út um allt og er öllum til ama.“

Frétta­blaðið sagði á dögunum frá því að Gísli Marteinn Baldurs­son, sjón­varps­maður og fyrr­verandi borgar­full­trúi, hefði verið með særindi í hálsi þegar hann gekk heim til sín vegna svif­ryksmengunar í borginni. „Mér finnst ekkert að því að banna nagla­dekk,“ sagði Gísli Marteinn.