Björn Ingi tilbúinn í fjórðu bólusetninguna: „Er einhver með betra plan?“

Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans og höfundur bókarinnar Vörn gegn veiru, segir að óvissan í tengslum við Ómíkron-afbrigði Covid-19 sé kjörlendi fyrir upplýsingaóreiðu og samsæriskenningar.

Í pistli sem hann skrifar á Facebook bendir Björn Ingi að of snemmt sé að slá neinu á föstu með alvarleg veikindi af völdum afbrigðisins.

„Allt er semsé frekar óljóst og þá spretta þeir fram sem telja þetta sanna að örvunarskammtur sé óþarfur og jafnvel sé best að smitast af þessu nýja afbrigði og afgreiða þannig málið,“ segir hann.

„Þetta er semsé ákveðið kjörlendi fyrir upplýsingaóreiðu og samsæriskenningar, enda upplýsingafundir ekki lengur haldnir og lína yfirvalda þar með kannski ekki alveg skýr.“

Sjálfur fór hann í þriðju bólusetninguna um daginn og er hann tilbúinn í þá fjórðu:

„Sjálfur fór ég í þriðju sprautu um daginn. Og skal fara í þá fjórðu á næsta ári, ef það verður talið skynsamlegast, enda hafa bólusetningar forðað mannkyni á undanförnum áratugum frá ólíklegustu sjúkdómum. Með víðtækri þátttöku í bólusetningum getum við frekar „lifað með veirunni” og haldið samfélaginu gangandi. Er einhver með betra plan?“