Björn Ingi: „Þetta er að hafast, kæru lands­menn“

„Þetta er að hafast, kæru lands­menn. Höldum þetta út. Missum ekki manns­líf á loka­sprettinum sem hefði mátt vernda,“ segir Björn Ingi Hrafns­son, rit­stjóri Viljans og höfundur bókarinnar Vörn gegn veiru.

Bretar til­kynntu í morgun, eins og Fréttablaðið greindi meðal annars frá, að þeir hefðu heimilað notkun bólu­efnisins frá Pfizer/BioN­Tech gegn CO­VID-19. Bretar hafa keypt 40 milljón skammta af bólu­efninu sem hefur 95 prósenta virkni gegn CO­VID-19. Er búist við því að hafist verði handa við að bólu­setja breskan al­menning strax í næstu viku en þá er ráð­gert að Bretar verði búnir að komast yfir 800 þúsund skammta af efninu.

Björn Ingi gerir þessi merku tíðindi að um­tals­efni á Face­book-síðu sinni auk þess sem fjallað er um málið á vef Viljans. Þar kemur fram að byrjað verði á því að bólu­setja við­kvæmasta hópinn, eldri borgara, fólk með lang­vinna sjúk­dóma og fólk sem starfar í fram­línunni.

„Aldrei áður í sögunni hefur bólu­efni verið þróað á jafn skömmum tíma, eða tíu mánuðum. Hingað til hefur jafnan verið miðað við að slíkt geti tekið allt að tíu árum,“ segir Björn Ingi sem hvetur þó landsmenn til að halda þetta út á lokasprettinum sem er að hefjast.