Björn Ingi segir Pírata dæma sig úr leik eða þurfa að éta ofan í sig loforðið

Björn Ingi Hrafnsson, fjölmiðlamaður og ritstjóri Viljans, segir að Píratar gætu verið að mála sig út í horn með loforði fyrir kosningar. Hann varaði flokkana við því í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að gefa út stór loforð rétt fyrir kosningar.

„Þetta gerir tvennt, þetta takmarkar mjög möguleikann á því að mynda ríkisstjórn. Og í öðru lagi þá þetta eykur möguleikann á því að fólk þurfi að svíkja ný loforð sem reynslan sýnir okkur að reynist fólki mjög erfitt allt kjörtímabilið.“

Nefnir hann nokkur dæmi um þetta. „Jóhanna Sigurðardóttir talaði um skjaldborg heimilanna, hún ætlaði að klára stjórnarskrána. Hún náði að gera hvorugt. Af alls konar ástæðum. Það var notað gegn henni, alveg tönnslast á þessu.“ Þá hafi Steingrímur J. Sigfússon sagt kvöldið fyrir kosningarnar 2009 að flokkur hans ætlaði ekki í Evrópusambandið, síðan hafi hann verið í ríkisstjórn sem sótti um aðild að ESB. „Þetta var notað gegn þeim alltaf og flokkurinn fékk hræðilega útreið í kosningunum eftir.“

Þá hafi Svandís Svavarsdóttir sagt í reiðilegri færslu á Facebook að það væri ódrengilegt að halda því fram að VG ætlaði í samstarf með Sjálfstæðisflokknum.

Það blasi við að sambærilegt geti átt sér stað núna:

„Píratar eru nú búnir að segja að þeir fari ekki í ríkisstjórn nema hún muni samþykkja, ekki bara taka fyrir, heldur samþykkja nýja stjórnarskrá,“ segir Björn Ingi. „Það er búið að reyna að koma á þessari stjórnarskrá í mörg ár, mörg þing, margir flokkar hafa verið í ríkisstjórn. Það hefur ekki verið meirihluti fyrir því, það er ekki vilji til þess. Þannig að ef Píratar setja slíkt skilyrði, sem þeir hafa kynnt og lofað, þá eru þeir annað hvort að dæma sig úr leik við að mynda ríkisstjórn eða þurfa að éta þetta ofan í sig, kjósendur verða óánægðir og andstæðingarnir munu rifja þetta upp aftur og aftur.“

Björn Ingi segir einnig ekki sniðugt af Samfylkingunni að útiloka samstarf með Sjálfstæðisflokknum.

Þá kom Björn Ingi með skilaboð til Kristrúnu Frostadóttur, oddvita Samfylkingarinnar, sem brást ókvæða við umfjöllun Morgunblaðsins og Viðskiptablaðsins um sig. „Ég segi bara velkomin í pólitík. Bæði karlar og konur í öllum flokkum hafa þurft að sæta þessu í gegnum tíðina. Þetta er bara hluti af leiknum. Hafðu bara allt uppi á borðinu og þá er þetta ekkert mál. Ekki láta andstæðingana sjá að þetta hafi áhrif á þig, þú verður reið eða reiður, þá halda þeir áfram.“