Björn Ingi segir Ís­lendinga vera að falla á prófinu

6. október 2020
11:31
Fréttir & pistlar

Björn Ingi Hrafns­son, rit­stjóri Viljans, segir Ís­lendinga á góðri leið með að falla á prófinu sem þriðja bylgja kórónu­veirufar­aldursins hefur lagt fyrir okkur. Það eigi við um al­menning og sótt­varna­yfir­völd. Þetta skrifar Björn í pistli á Viljanum.

„Ef við ætlum ekki að skít­falla á þessu prófi, eins og sagt var í gamla daga, þarf nú þegar að grípa til harðra að­gerða og breyta hugar­fari okkar allra,“ skrifar Björn Ingi sem vakið hefur at­hygli fyrir skel­egga fram­göngu sína á upp­lýsinga­fundum yfir­valda þetta árið.

Hann bendir á að veiran sé í veldis­vexti um allt sam­fé­lagið. „Öllum sem ég ræði við innan heil­brigðis­kerfisins ber saman um að smit séu miklu nær fólki en áður og út­breiðslan víð­tækari. Enginn lands­hluti er veiru­frír og hvarvetna má lesa fréttir af stofnunum og fyrir­tækjum sem þurfa að loka og senda stóra hópa fólks heim í sótt­kví.“

Hann segir ný­gengi smita í hæstu hæðum á al­þjóða­vísu og það þrátt fyrir að landa­mærum hafi verið lokað í reynd með kröfu um tvö­falda skimun. Veiran hafi borist til landsins í sumar þegar við slökuðum á og náði að breiðast út um allt land.

„Það er vandinn sem við er að etja núna og út­breiðslan er miklu víð­tækari en í mars þegar fyrsta bylgjan reis á miklum hraða.

Við al­menningur erum að falla á prófinu með því að passa okkur ekki nægi­lega vel, láta enn eins og ekkert sé og gæta ekki að ein­földustu smit­vörnum. Og þrí­eykið féll í þá freistni að vilja bregðast við vandanum með því að ganga hálfa leið en ekki alla og þess vegna er staðan jafn al­var­leg og raun ber vitni.“

Eigum að loka á undan­þágur og halda okkur heima

Björn segir Þór­ólf hafa verið allt of seinan að boða til sam­komu­banns að nýju. „Í gær viðurkenndi svo sóttvarnalæknir að líklega hefði átt að herða aðgerðir fyrr, nokkuð sem blasti við flestum sem um málið hafa fjallað,“ skrifar Björn.

Hann segir jafn­framt að að­gerðirnar sem nú hafi verið gripið til séu­alls ekki nógu af­gerandi. Þjóð­fé­lagið sé ekki í hæga­gangi eins og í vor þegar við hlýddum Víði og ferðuðumst innan­hús.

„Reglu­gerð var birt með alls­konar undan­þágum og beiðnum um fleiri slíkar hefur rignt inn til ráðu­neytisins. Það er eins og yfir­völd haldi að veiran beri ótta­blandna virðingu fyrir gestum leik­húsa og sund­staða, en leggi þá kerfis­bundið í ein­elti sem fari í ræktina eða horfi á fót­bolta­leiki. Þetta er ekkert þannig. Það er far­sótt á fleygi­ferð í sam­fé­laginu og þá þarf að grípa til allra leiða til að stöðva út­breiðslu­leiðir,“ skrifar Björn Ingi.

Skyn­sam­legast sé að læra af því sem við gerðum í vor þegar skólum var lokað tíma­bundið og farið í fjar­kennslu. Sama þurfi að gera núna og loka eigi á undan­þágur og allir eigi að halda sig heima „og taka að sjálf­sögðu aftur upp tveggja metra regluna.“

„Að lokum þurfa sótt­varna­yfir­völd að kyngja stoltinu og viður­kenna að al­mennari grímu­notkun er skyn­sam­leg við þessar að­stæður. Ekki bara til að verjast smiti eða því að smita aðra, heldur einnig til að minnka það veiru­magn sem mögu­lega gæti borist á milli. Er­lendar rann­sóknir hafa sýnt mikil­vægi þess og við þurfum að læra af því.“