Björn Ingi með spádóm fyrir næstu daga: „Dæmin sanna“

Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans og samfélagsrýnir, spáir því að nú þegar stutt sé til kosninga muni hneykslismál koma upp á yfirborðið. Í grein sem hann skrifar á Viljanní dag vitnar hann í stjórnmálaspekinginn sögufræga Niccolo Machiavelli:

„Kenningar Machiavellis ganga meðal annar út á réttar tímasetningar þegar kemur að árásum á andstæðinginn. Sagan segir okkur að nú sé að koma að hneykslismálunum,“ segir Björn Ingi. „Þau eru venjulega löngu tilbúin og hafa verið vandlega undirbúin í röðum andstæðinganna, en beðið með þau fram á síðustu stundu svo þau valdi mestum skaða og erfitt sé að bregðast við þeim.“

Björn Ingi segir að það megi ekki gerast of snemma og ekki of seint. „Dæmin sanna hið síðara; Jóhannes í Bónus keypti auglýsingar til að vara við Birni Bjarnasyni í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins og Hafskipsmenn gulltryggðu Ólafi Ragnari forsetastólinn í kosningunum 1996 þegar þeir birtu breiðsíður um hann með margvíslegu níði á kjördag. Sú atlaga sprakk beint framan í þá.“ Má svo einnig nefna fleiri dæmi en með þeim nýjari er þegar stærðfræðimenntun Píratans Smára McCarthy var tætt í sundur skömmu fyrir kosningar.