Björn Ingi með hugmynd: Myndi flýta bólusetningum mjög hér á landi

Björn Ingi Hrafnsson, ritstjóri Viljans og höfundur bókarinnar Vörn gegn veiru, varpar fram hugmynd sem gæti flýtt mjög fyrir bólusetningum hér á landi.

Dönsk yfirvöld tilkynntu í morgun að þau hefðu ákveðið að hætta alfarið að nota bóluefni Oxford/AstraZeneca gegn COVID-19. Eru Danir þar með fyrsta þjóðin í heiminum sem ákveður að hætta alfarið að nota bóluefnið en mörg lönd, Ísland þar á meðal, gerðu hlé á notkuninni vegna hættu á blóðtappa.

Björn Ingi bendir á í færslu á Facebook að Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hafi sagt að Ísland muni ekki fylgja dæmi Dana og hætta að gefa fólki umrætt bóluefni. Bendir hann á að hættan á blóðtappa sé hverfandi, 1 á móti milljón, á meðan hætta á blóðtappa af alvarlegum COVID-veikindum er margfalt meiri.

„Ef þetta er bjargföst sannfæring okkar fólks, sem ég dreg ekki í efa, eigum við að hafa samband við Dani og bjóðast til að nýta þeirra skammta og sleppa tilteknum aldurshópum kvenna við efnið en gefa öðrum. Það er mikilvægt að flýta okkar ferli í bólusetningum,“ segir Björn Ingi.

Óvíst er hversu marga skammta Danir eiga, en mögulega væri það tilraunarinnar virði fyrir íslensk yfirvöld að kanna stöðu mála hjá frændum vorum.