Fjölmiðlamaðurinn Björn Ingi Hrafnsson er langt frá því að vera sáttur með séra Davíð Þór Jónsson en eins og kunnugt hjólaði Davíð Þór af krafti í Katrínu Jakobsdóttur og félaga hennar í VG vegna innflytjendamála sem hafa verið í deiglunni að undanförnu.
Davíð lét býsna stór orð falla á Facebook í gær vegna brottvísana hælisleitenda frá Íslandi. Sagði hann meðal annars að „fasistastjórn VG“ hefði ákveðið að „míga“ á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. „Það er sérstakur staður í helvíti fyrir fólk sem selur sál sína fyrir völd og vegtyllur,“ sagði hann enn fremur.
„Ég hef andstyggð á því að fólk sem skotið hefur hér rótum og fengið vinnu sé sent úr landi. Og er bjartsýnn að finnist farsæl lausn. En feginn er ég að þetta nettröll sé ekki sóknarpresturinn minn. Stóryrðin eiga að undirstrika málstaðinn og dyggðaskreytinguna, en í reynd er hér pínulítill kall að senda forsætisráðherranum, fv sambýliskonu sinni, einstaklega ómerkilega skítapillu,“ skrifar Björn Ingi.
„Kennir ríkisstjórn hennar við fasisma og segir sérstakan stað í helvíti fyrir fólk eins og hana. Presturinn sjálfur! Ömurlegt,“ bætir hann við.
Davíð Þór og Katrín voru par fyrir löngu síðan en þau kynntust í Gettu betur þar sem Katrín var stigavörður.