Björn Ingi ekki sáttur: „Þetta er alveg hætt að vera fyndið“

6. júlí 2020
13:20
Fréttir & pistlar

„Þetta þarf að laga, ekki seinna en strax,“ segir Björn Ingi Hrafns­son, rit­stjóri Viljans, í pistli á vef sínum.

Þar gerir Björn Ingi til­kynningu BSBR að um­tals­efni en eins og fram kom í morgun eru dæmi um að lög­reglu­menn sem hafa þurft að fara í sótt­kví vegna starfs síns hafi ekki fengið reglu­legar yfir­vinnu­stundir greiddar.

„Lög­­reglu­­menn eru fram­línu­­fólk í öllum skilningi þess orðs. Þeir mæta al­­mennt fyrstir á vett­vang og hafa ekki val um það hvort þeir sinni út­kalli þegar eftir þjónustu þeirra er leitað. Þeir eru oftar en ekki ó­­­með­vitaðir um það hvað bíður þeirra og eru ber­skjaldaðir gagn­vart utan­­að­komandi ógn eins og smit­­sjúk­­dómum,“ sagði í bréfi sem BSRB sendi öllum lög­reglu­stjórum á landinu. Er það af­staða yfir­manna þeirra að þeir eigi ekki rétt til greiðslna á meðan þeir dvelja í sótt­kví, fjarri heimili og fjöl­skyldum, né fái þeir aukinn frí­töku­rétt vegna vakta­frí­daga sem þeir eiga að fá á meðan þeir eru í sótt­kvínni.

Björn Ingi tekur undir það hjá BSBR að þetta gangi ekki.

„Viljinn hefur oft­lega undan­farnar vikur vakið at­hygli á undar­legri skin­helgi ráða­manna þjóðarinnar þegar kemur að svo­nefndum fram­línu­stéttum í bar­áttunni gegn kórónu­veirunni Co­vid-19. Í yfir­lýsingum og ræðum æðstu ráða­manna er þetta mikil­vægasta fólkið, en samt nær það ekki sam­komu­lagi um kaup og kjör, þarf að lúta gerðar­dómi í til­felli hjúkrunar­fræðinga eða er fast í patt­stöðu, samnings­laust og ekki með verk­falls­rétt, eins og í til­felli lög­reglu­manna,“ segir Björn Ingi í pistlinum.

Hann lýsir hvernig honum varð við þegar hann las um­rædda til­kynningu frá BSRB í morgun. „Þegar til­kynning þessa efnis var lesin á heima­síðu banda­lagsins er ekki laust við að fyrst hafi komið til hrein og klár undrun, en litlu síðar pirringur og hneykslan.“

Björn Ingi segir að þetta þurfi að laga ekki seinna en strax. „Og semja um leið við lög­reglu­menn og hætta að treysta á með­virkni þeirra og skyldu­rækni. Þetta er alveg hætt að vera fyndið.“