Björn Ingi: Ég er umdeildur og nýti mér það óspart

Björn Ingi Hrafnsson á Viljanum, einn helsti senuþjófur Almannavarnafundanna á því herrans ári 2020 tekur sjálfan sig til kostanna í einlægu og hispurslausu samtali við Sigmund Erni í viðtalsþættinum Mannamáli sem hóf göngu sína á Hringbraut í gærkvöld eftir sumarlanga hvíld af nýupptekni efni.

Í viðtalinu segist Björn Ingi vel gera sér grein fyrir því að vera umdeildur allar götur frá því hann tók sín fyrstu skref í fjölmiðlum á Mogganum og sem aðstoðarmaður Halldórs heitins Ásgrímssonar utanríkisráðherra og síðar forsætisráðherra í upphafi aldarinnar, en honum hafi tekist að nýta sér það óspart á síðari árum, hann þakki frekar fyrir umtalið um sig en sýti það.

Hann segist ekki lengur vera flokkspólitískur, en ef eitthvað er hafi hann orðið hægri sinnaðri með árunum, allt frá því hann yfirgaf Framsóknarflokkinn og borgarstjórn eftir að Sjálfstæðisflokkurinn laumaði Ólafi F. Magnússyni til valda sem borgarstjóra á einu ævintýralegasta kjörtímabili í sögu Ráðhússins, frá 2006 til 2010 þegar oftar var skipt um meirihluta en karlmaður um sokka. Það hafi verið sorglegur tími og risið á pólitíkinni lágt.

Hann talar um æskuárin á Flateyri, stofnun Viljans á níunda ári, blaðamannaveiruna og drykkjuna sem var orðin að þvílíku sulli að hann setti tappann í flöskuna á síðasta ári, aðallega til að geta ræktað börnin sín og sýnt sínum nánustu þá kurteisi sem þeir eiga skilið, í stað þess að rausa í oflæti og sjá eftir öllu saman.

Og hann ræðir vitaskuld Almannavarnafundina og hlutverk sitt á þeim en þar hafi áralöng reynsla hans í fjölmiðlum komið sér vel, nema kannski í eitt skiptið sem hann nefnir sérstaklega, en þá varð spurningin svo háfleyg og löng, lærð bæði og undirbúin að landlæknir varð kjaftstopp. Loks er það heldur betur áheyrilegt að heyra Björn Inga lýsa átökunum bak við tjöldin millum stjórnmálafólks, ráðherra og heilbrigðisyfirvalda á tímum kórónaveirunnar sem hann hefur skrifað um í einkar vel heppnaðri og afhjúpandi bók hans, Vörn gegn veiru, sem fangar atburðarásina á stórum hluta þessa árs sem kennt verður við Covid 19.

Viðtalið við Björn Inga má sjá í heild sinni hér að neðan: