Björn Ingi birtir skeyti sem hann fékk frá Rússum: „Veturinn í Evrópu gæti orðið mjög örlagaríkur“

Björn Ingi Hrafnsson fjölmiðlamaður segir að veturinn í Evrópu gæti orðið mjög örlagaríkur. Hann birti á Facebook-síðu sinni skeyti sem hann fékk frá rússneskum yfirvöldum, að því er virðist, vegna atkvæðagreiðslna í Donetsk og Luhamns um innlimun í Rússland.

Rússar vilja að íbúar þessara svæða kjósi um hvort þeir verði hluti af Rússlandi eða Úkraínu. Pútín Rússlandsforseti tilkynnti í morgun að hann hygðist senda allt að 300 þúsund manna herlið til Úkraínu og leggja allt í sölurnar til að ná austurhluta landsins undir sig.

Björn Ingi segir ljóst að væntanleg atkvæðagreiðsla sé vel skipulögð því í gær barst honum boð um að vera viðstaddur atkvæðagreiðsluna í Luhansk í boði rússneskra stjórnvalda, eða „kosningasjóðs á vegum rússneska ríkisins“ eins og það var orðað.

Í bréfinu kom fram að boðið væri upp á uppihald og ferðalag í gegnum London, Istanbúl og svo Moskvu. Björn Ingi var ekki lengi að afþakka boðið.

„Ég afþakkaði boðið, enda ekki frjáls blaðamennska að ferðast á vegum innrásarliðsins og ræða við valda viðmælendur. Nú styttist í ávarp Pútíns og líkur á aukinni hervæðingu og jafnvel herlögum og allsherjar herskyldu. Veturinn í Evrópu gæti orðið mjög örlagaríkur,“ sagði Björn Ingi en eins og fram kom í morgun tilkynnti Pútín um stóraukna sókn inn í Úkraínu og sagði að Rússar myndu beita öllum ráðum til að ná markmiðum sínum.