Björn hrökk í kút yfir tilboði TM: „Ekki eins og að kaupa pizzu eða leikhúskort“

Grindvíkingurinn Björn Birgisson furðar sig á Cyber Monday-tilboði tryggingafélagsins TM í vikunni. Tilboðið vakti talsverða athygli en þar var auglýstur 30% afsláttur í eitt ár af tryggingaiðgjöldum nýrra viðskiptavina.

„Skal fúslega viðurkenna að ég bókstaflega hrökk í kút þegar ég heyrði mitt tryggingafélag taka þátt í Cyber Monday með því að auglýsa 30% afslátt til nýrra viðskiptavina á mánudaginn,“ segir Björn í færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann er mjög virkur.

Björn bendir í færslu sinni á að tryggingar séu ekki varningur sem kemur í hillurnar og sem hægt er hægt að ná niður í verði með betri innkaupum.

„Að kaupa tryggingar er ekki eins og að kaupa pizzu eða leikhússkort,“ segir Björn og bætir við að iðgjöldin eigi fyrst og fremst að ráðast af tjónatíðninni sem er alltaf að einhverju leyti ófyrirsjáanleg þó meðaltölur fyrri ára séu gott viðmið.

„Það er þekkt í tryggingabransanum að svokallaðir tjónakettir stunda það að ráfa á milli félaga þegar tjónatíðni þeirra fer úr böndunum, vitaskuld í von um skárri iðgjöld. Félögin verja sig oftast fyrir slíku með því að fara fram á að fá yfirlit yfir tjónatíðni ef grunur leikur á um að tjónaköttur sé á ferð. Allt í einu er auglýstur 30% afsláttur! Hvað hugsa þá þeir sem fyrir eru á fleti - og hvað skyldu tjónakettirnir hafa gert í tilefni dagsins?“

Björn er ekki sá eini sem furðaði sig á tilboði TM því Félag íslenskra bifreiðaeigenda, FÍB, gerði athugasemdir við tilboðið. Í frétt á vef FÍB í fyrradag kom fram það álit að tilboðið bryti gegn lögum um viðskiptahætti og markaðssetningu.

„Skilyrði þess að bjóða eitthvað á lækkuðu verði er að sala hafi áður farið fram á hærra verði. Þar sem TM auglýsir tilboðið fyrir nýja viðskiptavini, þá hefur félagið ekki selt þeim tryggingar á fyrra hærra verði. Engin leið er fyrir neytendur að vita hvert fyrra verð er á tryggingunum, þar sem TM birtir ekki verðskrá heldur sníður tilboð að hverjum og einum einstaklingi. Tilboð TM í dag er því alltaf fullt verð og ekki með afslætti, sama hvað fullyrt er í auglýsingum,“ sagði í frétt FÍB.