Björn furðar sig á fasteignaauglýsingu: Bara þessi vitneskja ætti að hækka verðið verulega

Björn Teitsson, upplýsingafulltrúi, matarskríbent og fagurkeri, klórar sér í kollinum yfir fasteignaauglýsingu sem hann rak augun í um helgina.

Um var að ræða auglýsingu fyrir tveggja hæða einbýlishús við Borgarás í Garðabæ. Ásett verð er 72,9 milljónir króna en um er að ræða 253 fermetra hús sem var byggt árið 1957. Húsið þarfnast talsvert mikillar endurnýjunar en er á grónum og fallegum stað í Garðabænum.

Það sem vekur furðu hjá Birni – og hann virðist ekki vera sá eini – er að hvergi er tekið fram hver teiknaði húsið.

„Þetta hús er sumsé teiknað af Gísla Halldórssyni. Það kemur ekki einu sinni fram í fasteignaauglýsingunni. Bara... einn mesti meistari byggingarsögu Íslands,“ segir Björn en Gísli, sem lést árið 2012, teiknaði til að mynda Laugardalshöll, Hótel Loftleiðir, Lögreglustöðina við Hverfisgötu og Tollstöðvarhúsið svo dæmi séu tekin.

„Hvað er eiginlega málið, af hverju er starf arkitekta svona lítils metið? Hata fasteignasalar peninga? Eða þekkingu? Af hverju er ekki regla að hafa nafn hönnuðar/arkitekts/byggingafræðings í fasteignaauglýsingum? Annars helvíti góð fjárfesting hér fyrir fólk sem getur tekið að sér verkefnið,“ segir Björn í færslu á Facebook-síðu sinni. Hann bætir við að þessi vitneskja um Gísli ætti að hans mati að smyrja þremur til sjö milljónum króna ofan á ásett verð.

Bergsteinn Sigurðsson, dagskrárgerðarmaður á RÚV, leggur orð í belg og bendir á sambærilegt dæmi.

„Þegar við seldum blokkaríbúð í Álfheimum spurði ég fasteignasalann hvort við ættum ekki að taka fram í auglýsingunni að hún væri teiknuð af Sigvalda. Honum fannst það ekki skipta máli.“