Björn: Er nema von að Ís­lendingar flytji til útlanda?

„Hrokinn, heimskan og yfir­lætið virðast engum tak­mörkunum sett,“ segir Björn Birgis­son, fisk­sali í Grinda­vík. Björn er þekktur í sínum heima­bæ og víðar fyrir að liggja ekki á skoðunum sínum.

Björn gerir dóm yfir­deildar Mann­réttinda­dóm­stólsins í Lands­réttar­málinu að um­tals­efni, en úr­skurður féll ís­lenska ríkinu í óhag í gær. Brutum við í bága við á­kvæði Mann­réttinda­sátt­málans þegar dómarar voru ekki skipaðir við Lands­rétt í sam­ræmi við lands­lög.

Björn líkir Ís­landi og Banda­ríkjunum saman og segir að þar í landi sé skipun dómara há­pólitísk.

„Hér­lendis er skipun dómara alltaf sögð taka mið af reynslu og hæfni um­sækj­enda - og síðan skipa dóms­mála­ráð­herrar Sjálf­stæðis­flokksins sína gæðinga í em­bættin. Hvort er verra? Tví­mæla­laust ís­lenska að­ferðin.“

Björn bendir á að banda­ríska að­ferðin eigi ekkert skylt við lýð­ræðis­legar venjur, um sé að ræða við­tekinn ósið sem er þó á engan hátt falinn.

„Hér­lendis byggist ferlið á undir­ferli, lygum og blekkingum og nú hefur virtasti dóm­stóll veraldarinnar, Mann­réttinda­dóm­stóll Evrópu, stað­fest að svo sé. Við­brögð sjálf­stæðis­manna? Það er ekkert að marka þann dóm­stól -hann er í pólitískri her­ferð gegn Sjálf­stæðis­flokknum og dóms­mála­ráð­herrum hans!

Björn furðar sig á því að flokkurinn njóti mest fylgis í skoðana­könnunum.

„Og ó­þverra­hátturinn nýtur stuðnings um 25% þjóðarinnar! Er nema von að sannir Ís­lendingar leyti margir hverjir út fyrir 200 mílurnar til að þurfa ekki að horfa upp á þessar sí­felldu nauðganir á góðum stjórn­sýslu­háttum í eigin landi?“