Björn er hættur að fylgjast með

Dv.is vitnar í heimasíðu Björns Bjarnasonar, sem var síðast ráðherra í hrunstjórninni árið 2009 og lét þá af setu á Alþingi. Björn virðist halda að hann ráði ennþá einhverju og að viðhorf hans skipti máli. Það er að vísu mikill misskilningur. Samt dreifir hann öfgafullum skoðunum sínum eins og beðið sé eftir þeim. Nú síðast ræðst hann á Ragnar Þór Ingólfsson, formann VR og varaforseta ASÍ, og vænir hann um að dreifa hræðsluáróðri og bölmóði. Björn gengur svo langt að tala um „upplýsingafalsanir“.

Hvað sagði formaður VR sem var svona rangt, að mati hins gamla og löngu hætta ráðherra? Ragnar Þór benti á hið augljósa, sem er að kaupmáttur hefur rýrnað um 2 prósent það sem af er þessu ári, samkvæmt upplýsingum opinberra stofnana, og að það stefni í 3 prósent kaupmáttrrýrnun til viðbótar út þetta ár að óbreyttu. Þá bendir Ragnar Þór á það að nú mælist verðbólga 10 prósent sem er langt umfram það sem ætlað hefur verið, hann kvartar undan blindri vaxtahækkunarstefnu Seðlabanka Íslands, sem engu hefur skilað í baráttu við verðbólguna, og loks kvartar hann undan því að vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur hafi ekkert aðhafst til að hamla gegn þessari hættulegu þróun sem kemur hart niður á almenningi í landinu. Þessum sama almenningi og verkalýðsleiðtogar eiga að verja með öllum tiltækum ráðum.

Vandséð er að formaður VR hafi gert nokkuð rangt með því að vekja athygli á þessum ömurlegu staðreyndum. Sem einum helsti verkalýðsleiðtogi landsins ber honum beinlínis skylda til að vekja máls á þessu og freista þess að vekja stjórnvöld af Þyrnirósarsvefni sínum þar sem þau hafa ekkert gert til að sporna við umræddri óheillaþróun.

Ekki verður Ragnar Þór vændur um „upplýsingafalsanir“, eins og Björn Bjarnason ýjar svo ósmekklega að. Öðru nær. Hann vekur einungis athygli á vondum staðreyndum sem stuðningsmenn þessarar ríklisstjórnar vilja helst ekki horfast í augu við. Kjör vinnandi fólks, almennings í landinu, eru að rýrna á sama tíma og opinberir embættismenn, þingmenn og ráðherrar taka sér launahækkanir til að tryggja kjör sín. Björn Bjarnason nýtur sannarlega góðs af því í ríflegum eftirlaunum sínum sem fyrrverandi þingmaður og ráðherra. Hann þarf ekki að hafa neinar áhyggjur eins og fólkið sem verkalýðsleiðtogarnir eiga að vinna fyrir.

Björn Bjarnason virðist vera hættur að átta sig á ríkjandi þróun í landinu eða þá að hann reynir að blekkja lesendur sína með því að taka undir þann fagurgala sem helstu talsmenn núverandi vinstri stjórnar hafa kyrjað fram til þessa. Katrín og Bjarni Benediktsson hafa ítrekað komið fram í fjölmiðlum að lagt höfuðáherslu á að fólkið í landinu hafi það svo gott, betra en um árabil. Nú er þessi söngur falskur og hjáróma þegar opinberar mælingar sýna að kaupmáttur rýrnar og mun rýrna enn frekar á næstu mánuðum vegna ráðleysis stjórnvalda.

Fram undan eru kjarasamningar þar sem 300 samningar eru lausir. Ragnar Þór Ingólfsson mun þá eiga sæti við samningaborðið þar sem viðhorf hans munu vega þungt. Hins vegar mun Björn Bjarnason hvergi koma þar nærri þannig að viðhorf hans eru léttvæg. Ragnar Þór hefur leyft sér að benda á vondar staðreyndir sem munu ekki hverfa þótt gamall harðlínumaður í stjórnmálum væni menn um „upplýsingafölsun“ að ósekju.

Fram undan er langur og kaldur vetur á vinnumarkaði sem mun verða vinstri stjórn Katrínar Jakobsdóttur erfiður – og jafnvel banvænn.

- Ólafur Arnarson.