Björn Bjarnason brennir af

Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, skrifar stundum „ritdóma“ sem birtast í Morgunblaðinu. Yfirleitt fjalla þeir um bækur sem ritstjóra blaðsins finnst mikilvægt að hreyta ónotum í og gera lítið úr í pólitískum tilgangi.

Þessi iðja vekur furðu og þykir vera fyrir neðan virðingu fyrrverandi ráðherra. En Björn Bjarnason er óútreiknanlegur og lætur sér fátt fyrir brjósti brenna þegar þröngir pólitískir hagsmunir eru annars vegar.

Í síðustu viku birti Morgunblaðið „ritdóm“ Björns um nýja og veglega bók Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra í Reykjavík. Björn brá ekki vana sínum, setti upp pólitísku gleraugun og fann bókinni nánast allt til foráttu. Sá hann fátt jákvætt eða gott við þessa vönduðu og yfirgripsmiklu bók og ritdómur hans missti gersamlega marks. Enda dylst fáum að Björn Bjarnason virðist leggja fæð á borgarstjórann sem nýtur almennra vinsælda meðal íbúa höfuðborgarinnar.

Fyrir því eru nokkrar ástæður og sumar þeirra eiga rætur sem teygja sig langt aftur.

Sjálfstæðisflokkurinn hafði stjórnað Reykjavíkurborg nær óslitið frá upphafi þegar Reykjavíkurlisti Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur felldi meirihluta flokksins í kosningunum 1994. Síðan hefur flokkurinn ekki borið sitt barr í höfuðborginni. Dagur B. Eggertsson var einn sigurvegara R-listans og er enn við völd þrátt fyrir að R-listinn heyri sögunni til. Yfir það kemst Björn Bjarnason ekki og því gat umfjöllun hans um bók Dags vart einkennst af öðru en hnútukasti og ólund.

Sjálfur hafði Björn reynt að stöðva sigurgöngu Dags og félaga hans í borginni er hann leiddi lista Sjàlfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum 2002. Sú tilraun mistókst með öllu. Flokkur hans hlaut einungis 40 prósent atkvæða í þeimkosningum sem þá var minnsta fylgi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningum frá upphafi. Björn fór mikla sneypuför, niðurlæging hans var mikil og R-listinn hélt völdum.

Nú er Björn Bjarnason kominn á eftirlaunaaldur og hefur fengið ófá tækifæri í stjórnmálum; alþingismaður, menntamálaráðherra og dómsmálaráðherra. En hann er friðlaus, getur ekki hætt og dregið sig í hlé eins og sæmandi væri miðað við aldur og feril. Með vandræðalegum skrifum á borð við „ritdómana“ sem hann birtir öðru hverju um pólitíska andstæðinga lítillækkar hann sjálfan sig

Vandi Björns Bjarnasonar felst meðal annars í því að hann hefur ávallt staðið og mun alltaf standa í skugga af föður sínum, Bjarna Benediktssyni, enda gnæfir Bjarni yfir forystumenn Sjálfstæðisflokksins sem á eftir honum komu. Hann gegndi valdastöðum sem sonur hans fékk aldrei að spreyta sig á: Varaformaður og formaður Sjálfstæðisflokksins, utanríkisráðherra, forsætisráðherra – og borgarstjóri í Reykjavík.

- Ólafur Arnarson