Björn bendir á meðvirkni með bílum – Þrjú slys að meðaltali á dag: „Aldrei forsíðufrétt um það“

Björn Teitsson, kynningarstjóri Krabbameinsfélagsins og fyrrverandi fréttamaður RÚV, vill minna fólk á hættuna sem felst í því að vera í bíl en tilefnið er frétt Vísis sem birt var í gær um tíðni slysa á rafmagnshlaupahjólum.

Í fréttinni var vísað í niðurstöður rannsóknar sem framkvæmd var frá 1. júní til 31. ágúst í fyrra um slys tengdum slíkum hjólum. Samkvæmt rannsókninni leitaði að meðaltali 1,6 á bráðamóttöku vegna slysa á hverjum degi síðasta sumar en mikil aukning hefur verið á rafmagnshlaupahjólum hér á landi.

„Jújú, slys á hverjum degi á rafhlaupahjóli en aldrei alvarleg eða lífshættuleg,“ segir Björn í færslu sinni á Twitter um málið. „Á bíl er um 3 slys að meðaltali á dag og í hverri viku 2-3 alvarleg slys eða banaslys. Aldrei forsíðufrétt um það samt.“

Með færslunni birtir Björn lista yfir fjölda þeirra sem slasast höfðu í bílslysum á síðasta ári. Átta manns höfðu þá látist og 149 særst alvarlega.

„Fyrir utan það valda bílar öndunarfærasjúkdómum með svifryksmengun og brennissteinsdíoxíði og veldur tugum dauðsfalla árlega. Einkabíllinn og tengd atriði eru stærsti einstaki liður í losun gróðurhúsalofttegunda, um 70% plasts sem er í sjónum er frá dekkjum af bílum,“ segir Björn enn fremur á Twitter.