Björgvin Halldórs reiður vegna Borgarlínu: „Verður ekki samþykkt af okkur“

Björgvin Halldórsson, einn ástsælasti tónlistarmaður okkar Íslendinga fyrr og síðar, blandar sér af krafti í umræðuna um Borgarlínu á Facebook-síðu sinni.

„Á nú að troða gæluvekefni Reykjavíkurborgar, Borgarlínunni upp á okkur Hafnfirðinga án samráðs. Og hugsanlega rífa eða kaupa hús án samráðs við eigendur. Þetta er fyrir neðan allar hellur og verður ekki samþykkt af okkur,“ segir Björgvin á Facebook-síðu sinni og hvetur fólk til að láta í sér heyra og deila færslunni.

Áhyggjur Björgvins snúa um deiliskipulagsbreytingu í Hafnarfirði sem gerir ráð fyrir að hægt verði að fjarlægja eða rífa gömul hús vestan við Reykjavíkurveg vegna Borgarlínu. Fréttablaðið og Kjarninn hafa meðal annars fjallað um málið í dag.

Í frétt Fréttablaðsins kemur fram að Hafnfirðingar hafi margir lýst yfir áhyggjum af þessu og hefur Jóhannes Þór Skúlason, formaður Samtaka ferðaþjónustunnar og íbúi í Hafnarfirði, vakið máls á þessu. Hann hefur látið sig málið varða á Facebook þar sem hann sagði það fráleita hugsun að rífa eða fjarlægja fjölmörg hús sem með réttu ættu að vera hluti af skilgreindu verndarsvæði í byggð til að leggja meira malbik.

Ólafur Ingi Tómasson, formaður skipualgs- og byggingarráðs Hafnarfjarðarbæjar, segir að nokkrar leiðir séu færar til að greiða veg fyrir Borgarlínuna upp og niður Reykjavíkurveginn.

„Í deiliskipulaginu eru gefnar heimildir fyrir því að flytja hús eða fjarlægja ef til þess kæmi að það þyrfti að endurhanna aðkomu til Hafnarfjarðar í kringum Reykjavíkurveg. Það gæti komið til þess en það er ekkert fullyrt um að það verði gert,“ segir Ólafur.