Bjartsýnir á að opna „annan Vog“

„Það raunhæfa í stöðunni er það að það er 600 manna biðlisti í meðferð og okkar markmið er að eyða þessum biðlista á tveimur árum og við teljum það raunhæft og til þess að svo megi verða að þá þurfum við í fyrsta lagi að fá húsnæði“, segir Arnar Gunnar Hjálmtýsson talsmaður Bláa bandsins í þættinum 21 í kvöld, miðvikudag, en þeir sem starfa með því eru reyndir AA menn og ráðgjafar í áfengis-og vímuefnameðferðum, m.a. frá starfi SÁÁ.

Hópurinn sem kennir sig við Bláa bandið vinnur nú að því að opna áfengis-og vímefnameðferð í Víðinesi á Kjalarnesi, eða afeitrunarsjúkrahús sambærilegt Vogi. Víðines er í eigu Reykjavíkurborgar og var það auglýst til leigu síðastliðinn september.

„Þetta húsnæði er byggt fyrir áfengismeðferð alveg sérstaklega og það voru frumkvöðlar í AA samtökunum sem kölluðu sig Bláa bandið og hófu rekstur í áfengismeðferð í almannaþágu eins og það var orðað, á Flókagötu 29“, segir Arnar og þetta hafi verið árið 1955 en síðan hafi verið farið frá Flókagötunni og húsið í Víðinesi byggt ekki svo löngu síðar. Síðan hafi ríkið og Kleppur verið komið inn í þá starfsemi. „Og á endanum gaf Bláa bandið Reykjavíkurborg þetta hús og var þess óskað að þetta myndi nýtast alkóhólistum“, segir Arnar.

„Síðan þá er alls konar starfsemi búin að vera þarna“, bætir hann við og að hópurinn á bak við áformin nú kalli sig Bláa bandið sem varpi ljósi á söguleg tengs við Víðines.

Arnar segir að fundur með Reykjavíkurborg í gær hafi gefið gott tilefni til að ætla að áformin nái fram að ganga. „Reykjavíkurborg stendur sig framúrskarandi vel í þessum málaflokki og það mæðir mest á þeim af öllum sveitarfélögunum. Og við áttum samtal við eignasýsluna í gær og þeir tóku bara ágætlega í þetta og ætla að skoða alla fleti málsins“.

„Hugmyndin okkar er að reka þetta með stuðningi, frjálsum framlögum og sponsorum og þetta verður rekið án hagnaðar“, bætir Arnar við og ítrekar að húsnæði sé fyrsta skrefið til að byggja upp annað sjúkrahús á við Vog en heilbrigðisráðuneytið gefi síðan upp hvaða læknisfræðilegar forsendur þurfi til að fá leyfi til að reka slíkt fyrir meðferð. Það sé hópurinn búinn að fara yfir og skoða og þar sé allt skýrt um hvað þurfi til að manna heilbrigðisþjónustu í slíka meðferðarstofnun.

Arnar Gunnar rekur áfangaheimlið Betra líf á þremur stöðum á höfuðborgarsvæðinu þar sem samtals rými er fyrir 52 einstaklinga sem þurfa dvöl á áfangaheimili eftir meðferð.