Bjarni vaknar með andfælum og vill nú selja banka

Eitt af þeim verkefnum sem Bjarni Benediktsson hefur haft með höndum síðustu sjö árin er að selja eignarhluti ríkisins í bönkum. En hann hefur ekkert gert í málinu og ekki selt eitt einasta hlutabréf í Landsbankanum eða Íslandsbanka. Sjálfstæðisflokkurinn komst í ríkisstjórn að nýju vorið 2013 og þá varð Bjarni fjármálaráðherra. Þeirri stöðu hefur hann gegnt síðan ef undanskilinn er tíminn þegar hann var forsætisráðherra í 10 mánuði. 

Allan þennan tíma hefur legið í loftinu að æskilegt væri að ríkið minnkaði eignarhlut sinn í bankakerfinu. Forystu um sölu á eignarhlutum í bönkum hefur fjármálaráðherra öðrum fremur. En Bjarni hefur ekki komið í verk að selja neitt, utan smávægilegs hlutar í Arion-banka. Á undanförnum árum hefur verð á eignarhlutum í bönkum farið lækkandi um allan heim. Því hefði verið mun betra fyrir íslenska ríkið að ganga í að minnka eignarhluti sína í bönkunum fyrir nokkrum árum í stað þess að bíða á meðan virði bankanna hefur stöðugt farið lækkandi.

Ljóst er að Landsbankinn hefur verið tilbúinn til að fara í söluferli allan tímann sem Bjarni Benediktsson hefur haft þetta verkefni með höndum án þess að aðhafast. Íslandsbanki kom síðar í eigu ríkisins eins og kunnugt er. Bankasýsla ríkisins kemur einnig við sögu og hefur ekki haft mörg verkefni á sinni könnu. Spyrja má: Hvað var Bankasýslan eiginlega að hugsa og hvað var Bjarni Benediktsson að hugsa þegar öllum mátti vera ljóst að virði banka um allan hinn vestræna heim var á hægri niðurleið. Hvers vegna í ósköpunum var ekki hafist handa um að selja eitthvað að hlutabréfum ríkisins í bönkunum á meðan virði þeirra var meira? Hvers vegna var beðið öll þessi ár meðan verðið féll jafnt og þétt? Þetta getur alla vega ekki talist farsæl eignaumsýsla með miklum verðmætum þjóðarinnar.

Og svo rýkur fjármálaráðherra allt í einu af stað og spilar hugsanlegri sölu á eignarhlutum út sem einhverju mótvægi við vaxandi kröfum um eflingu innviða í þjóðfélaginu. Samgöngukerfið hefur drabbast niður, raforkukerfið hefur ekki fengið það fé til fjárfestinga sem þarf, peningar sem hafa safnast í Ofanflóðasjóð til að byggja varnarmannvirki sitja fastir í ríkissjóði og eru notaðir það til rekstrar ríkisbáknsins í stað skilgreindra og brýnna fjárfestinga. 

Ákvörðun um sölu eignarhluta á Íslandsbanka - þegar hún loksins kemur - einkennist af pólitískri neyð Sjálfstæðisflokksins sem er orðinn fastur í 20% fylgi samkvmt öllum skoðanakönnunum. Þá þarf að hefja pólitísk yfirboð í staðinn fyrir að vinna eftir yfirvegaðri langtímaáætlun sem hefði verið unnt ef ráðherra hefði ekki sofið svona lengi á verðinum.

En lítum á framkvæmd málsins að lokum: Búið er að lýsa því yfir að ætlunin sé að selja minnihluta í bankanum. Engar tímasetningar eru gefnar upp. Ekkert plan virðist vera tilbúið og síðast en ekki síst: Eru einhverjir kaupendur á sveimi?

Til þess að sala heppnist - þá þarf einhver að vera tilbúinn að kaupaM