Bjarni: Létt­væg dæmi um spillingu – Logi: „Dæmi nú hver fyrir sig“

„Ég tel að dæmin sem hátt­virtur þing­maður nefnir hér því til stuðnings að það þurfi að hafa miklar á­hyggjur af spillingu á Ís­landi, sé nú heldur létt­væg,“ sagði Bjarni Bene­dikts­son fjár­mála­ráð­herra í ó­undir­búnum fyrir­spurna­tíma á Al­þingi í dag.

Logi Einars­son, for­maður Sam­fylkingarinnar, spurði Bjarna þá út í stöðu Ís­lands á ár­legum lista Tran­s­paren­cy International um spillingu. Ís­land fellur um sex sæti á listanum og situr nú í 17. sæti á listanum, lang­neðst Norður­landanna.

„Meðal skýringa nefnir skýrslan banka­hrunið, fjár­mála­vafstur stjórn­mála­manna í Panama-skjölunum og nú síðast Sam­herja­málið, einnig að spilling nái til opin­berra aðila. Lái mér enginn þó að hugurinn reiki ör­stutt að Lands­réttar­málinu,“ sagði Logi en Bjarni sagði að þetta væru nú heldur létt­væg dæmi um spillingu.

„Að kalla það mál spillingu í Lands­réttar­málinu þegar öll gögn eru opin, þegar Al­þingi kemur að málinu og tekur síðustu á­kvörðunina, þegar em­bættis­menn mæta fyrir nefnda­svið og færa rök fyrir til­lögu ráð­herrans, þegar hér í þing­sal eru greidd at­kvæði fyrir opnum tjöldum. Að kalla af­greiðslu slíkra mála spillingu er auð­vitað með miklum ó­líkindum,“ sagði Bjarni sem sagði það skipta máli hvort menn líti svo á að glasið sé hálf­tómt eða hálf­fullt.

Logi sagði að þegar kæmi að að­gerðum stjórn­valda gegn spillingu vildi hann hafa glasið fullt.

„Og dæmin sem ég nefndi eru nefni­lega alls ekki létt­væg. Ég nefndi banka­hrun. Ég nefndi ó­eðli­legt fjár­mála­vafstur stjórn­mála­manna í tengslum við Panama-skjölin og ég nefndi Sam­herja­skjölin. Mig langar þá að nefna í sam­hengi við þessa skýrslu að ný­lega birtist skoðana­könnun MMR sem sýnir að einungis 23% treysta fjár­mála­ráð­herranum til að halda utan um sölu á Ís­lands­banka. Þetta er for­vitni­leg niður­staða og það vakna ó­neitan­lega spurningar.“

Bjarna fannst Logi skjóta fyrir neðan beltis­stað og sagði að verið væri að fara út fyrir kjarna málsins þegar farið er að ræða niður­stöður skoðana­kannana. Skaut hann létt á Loga og Sam­fylkinguna.

„Eða ættum við kannski að velta því fyrir okkur hér, myndi það skila okkur eitt­hvað fram veginn í þágu þjóðarinnar, hvers vegna það skyldi vera að 83–84% þjóðarinnar vilji ekki Sam­fylkinguna sem val­kost við stjórn landsins. 83% segja bara nei þegar Sam­fylkingin býður fram, við kjósum eitt­hvað annað. Þetta er bara ein­hver þvælu­um­ræða. Aðal­at­riðið er að við stöndum við það sem sagt hefur verið í banka­sölu­málinu, að fylgja opnu og gagn­sæju ferli þar sem enginn er að flýta sér. Við stígum var­færin skref og fylgjum því sem boðað hefur verið, að allir geti tekið þátt sem hafa á­huga.“