Bjarni birtir mynd og segir Íslendinga geta vel við unað

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra birti athyglisverða mynd á Twitter-síðu sinni í dag, en hún sýnir hlutfall þeirra sem fengið hafa að minnsta kosti annan skammtinn af bóluefni gegn COVID-19.

Nokkuð var rætt um hægagang í bólusetningum hér á landi eftir áramót og var ríkisstjórnin gagnrýnd harðlega fyrir að hafa stokkið á vagninn með ESB um dreifingu bóluefna.

Undanfarnar vikur hefur þó gengið býsna vel í bólusetningum eins og landsmenn sem fylgjast með fréttum hafa vafalítið tekið eftir.

Myndin sem Bjarni birti er af vefnum Our World In Data, en á henni er hægt að bera saman ýmsa tölfræðiþætti milli landa, til dæmis hlutfall bólusettra gegn COVID-19. Bjarni ber Ísland saman við Bretland og Bandaríkin þar sem bólusetningar fóru mjög hratt af stað.

Undanfarnar vikur hefur Ísland sótt verulega á þessi tvö risastóru ríki og er nú svo komið að rétt rúmlega 40 prósent landsmanna hafa fengið að minnsta kosti fyrri skammtinn af bóluefni gegn COVID-19. Þrátt fyrir fínan árangur er staðan þó örlítið betri í Bandaríkjunum og í Bretlandi. Hlutfallið í Bretlandi er rétt rúmlega 52 prósent en í Bandaríkjunum tæp 46 prósent.

„Mörgum er tíðrætt um árangur Breta og Bandaríkjamanna í bólusetningum, sem hafa gengið hratt og vel fyrir sig. Hér má sjá annað land þar sem gengur líka býsna vel,“ segir Bjarni í færslu sinni.

Fyrir mánuði síðan höfðu aðeins 17 prósent landsmanna fengið bóluefni í samanburði við 34 prósent Bandaríkjamanna og 47 prósent Breta. Ísland hefur því sótt verulega í sig veðrið og ættum við að geta vel við unað miðað við allt saman.