Bjarni Ben í vinstri stjórn varar við vinstri stjórn

„Að hér verði ekki til vinstri stjórn eftir kosningar, það er stóra málið. Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið aflið sem hefur komið í veg fyrir það hingað til og það er það sem við stefnum á að gera,“ sagði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, í viðtali við Pál Magnússon í þættinum Pólitík með Páli Magnússyni á sjónvarpsstöðinni Hringbraut.

Maður veit hreinlega ekki hvort maður á að hlæja eða gráta þegar maður heyrir þetta. Er fjármála- og efnahagsráðherra að reyna að vera fyndinn? Vitanlega er honum sjálfum fulljóst að flokkur hans situr nú í vinstri stjórn undir forsæti formanns Vinstri grænna þótt hann reyni að telja fólki trú um annað. Honum hefur meira að segja tekist að telja sumum ungum frambjóðendum flokksins trú um að Sjálfstæðisflokkurinn sé brjóstvörn gegn vinstri stjórnum hér á landi.

Sjálfstæðisflokknum er hins vegar nákvæmlega sama hvort hann starfar til hægri eða vinstri. Honum er nákvæmlega sama hvaða stefna er uppi í heilbrigðismálum þjóðarinnar og nákvæmlega sama þótt vinstri-ríkisvæðingarstefna ríkisstjórnarinnar hafi nær leitt til hruns Landspítalans vegna fráflæðisvanda. Honum er nákvæmlega sama þótt íslensk grunnskólabörn dragist hratt og örugglega aftur úr jafnöldrum sínum í öðrum löndum vegna ólestrar í skólamálum þjóðarinnar. Sjálfstæðisflokknum er meira að segja sama þótt Steingrímur J. Sigfússon, lykilmaður í því að draga forvera Bjarna Benediktssonar á formannsstóli í flokknum fyrir Landsdóm – einan Íslendinga frá upphafi byggðar hér á landi, sitji sem æðsti maður æðstu stofnunar Íslenska lýðveldisins í skjóli flokksins.

Aðeins eitt skiptir Sjálfstæðisflokkinn máli. Varðstaðan um sérhagsmuni stórútgerðarinnar er málið sem öllu öðru má fórna fyrir. Allt annað má láta reka á reiðanum sé hægt að tryggja áframhaldandi nær gjaldfrjálsan aðgang helstu bakhjarla flokksins að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Heilbrigðiskerfið stendur á brún hengiflugs, framtíðarsamkeppnisstaða þjóðarinnar er í voða vegna þess að skólakerfið okkar skilar börnunum okkar ekki samkeppnisfærum við börn í öðrum löndum, lítil og meðalstór fyrirtæki geta ekki keppt við útlend fyrirtæki vegna þess að krónuskatturinn er að sliga þau, heimilin borga margfalda vexti af húsnæðislánum samanborið við heimilin í nágrannalöndunum og matarreikningurinn hér á landi er helmingi hærri en í flestum löndum sem við berum okkur saman við.

En þetta er allt í lagi, finnst Sjálfstæðisflokknum. Þetta er ásættanlegt hliðartjón þess að standa vörð um gjafakvótann. Gjafakvótann til stórfyrirtækja, sem búa ekki lengur við krónuhagkerfið sem almenningur og smærri fyrirtæki þurfa að þola – þau borga ekki krónuskattinn vegna þess að þau eru komin í annað myntkerfi en við hin. Þau fjármagna sig í annarri mynt en við hin.

Gjafakvótakerfið er nauðsynlegur „fyrirsjáanleiki“ fyrir sjávarútveginn. Í þættinum hjá Páli fullyrti Bjarni að það væri einmitt gjafakvótakerfið sem tryggði fjölbreytni í íslenskum sjávarútvegi og tryggði að hinir sterku yrðu ekki of sterkir. Væntanlega hafa þessi ummæli Bjarna komið þeim sem reka útgerðir án fiskvinnslu og fiskvinnslu án útgerðar – þeim sem reiða sig á fiskmarkaði til sölu á afurðum sínum og kaupum á hráefni – í opna skjöldu. Sjálfstæðisflokkurinn hefur fram til þessa látið sig hagsmuni þessara litlu aðila engu varða. Hjá flokknum eru það hinir stóru og sterku sem blíva.

„Fyrirsjáanleiki“ Bjarna Benediktssonar og Sjálfstæðisflokksins gagnast lítt íslensku þjóðinni. En hann hefur á undanförnum árum leitt til þess að stórútgerðin, handhafi gjafakvótans, hefur á undanförnum örfáum árum ekki aðeins endurnýjað skipa- og tækjakost sinn fyrir milljarðatugi heldur keypt upp aðrar greinar íslensks atvinnu- og viðskiptalífs fyrir tugi milljarða, greitt eigendum sínum tugi milljarða í arð og spýtt hundruðum milljóna nánast á hverju ári í taprekstur Morgunblaðsins.

Þetta er stóra málið fyrir Sjálfstæðisflokkinn. Til að verja þessa hagsmuni sest hann í hvaða ríkisstjórn sem er, líka vinstri stjórnir. Enda sagði Bjarni í þættinum að óska ríkisstjórn hans eftir kosningar væri áframhaldandi vinstri stjórn undir forystu Vinstri grænna.

- Ólafur Arnarson