Hringbraut skrifar

Bjarni ben heldur áfram andstæðingum til mikillar gleði

3. febrúar 2020
09:21
Fréttir & pistlar

Nú er ákveðið að Bjarni Benediktsson haldi áfram sem formaður Sjálfstæðisflokksins. Þrálátur orðrómur hefur verið um að hann hyggðist stíga niður úr formannsembætti næsta haust en af því verður ekki.

Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið að mælast með einungis um 20% fylgi í skoðanakönnunum í meira en heilt ár. Bjarna hugnast ekki að hætta við þær aðstæður. Flokkurinn leitar að einhverjum útspilum til að auka fylgi sitt. Engar lausnir eru í sjónmáli og forystu flokksins skortir traust.

Bjarni hefur heldur ekki fundið eftirmann sem flokkseigendur í Engeyjarættinni treysta. Guðlaugur Þór Þórðarson hefur næga reynslu og þekkingu til að taka við flokknum til að auka fylgi hans. En klíkan kringum Bjarna sættir sig ekki við hann.
Alla vega ekki enn.

Lengi var stefnt að því að láta Þórdísi Gylfadóttur, ráðherra og varaformann, taka við af Bjarna. En hún hefur ekkert vaxið að virðingu innan flokksins þrátt fyrir góð tækifæri. Nú er frekar horft til dómsmálaráðherrans unga, Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur, sem þykir koma inn í ríkisstjórnina eins og stormsveipur. Margir eru henni ævarandi þakklátir fyrir að losa þjóðina við Harald Johannessen. Haldi hún áfram að ganga rösklega til verka gæti hún vaxið upp í hlutverk formanns flokksins.

Bjarni Benediktsson hefur brátt gegnt formennsku í 11 ár. Fylgi flokksins í Alþingiskosningum hefur aldrei verið lélegra en í formannstíð hans. Hann tók við flokknum með 37% fylgi. En árangurinn er þessi:

Það lakasta í 90 ára sögu er 23.7% árið 2009, skömmu eftir hrunið sem Sjálfstæðisflokknum og arfleifð Davíðs Oddssonar var kennt um.

Það næstminnsta í sögunni var í Alþingiskosningunum 2017 eða 25.2% sem skilaði 16 þingmönnum eins og 2009.

Þriðji lakasti árangur flokksins náðist í kosningunum 2013. Þá nam fylgið 26.7% sem verður að teljast slappt eftir fjögurra ára vinstri stjórn sem sat við völd rúin trausti seinni tvö árin.

Í kosningunum 2016 náði flokkurinn 29% fylgi sem er besti árangur Bjarna en engu að síður fimmti versti árangur Sjálfstæðisflokksins frá upphafi.

Sagan mun dæma Bjarna Benediktsson af þessum dapurlega árangri. Í ljósi þessara tölulegu staðreynda þarf ekki að undra þó andstæðingar Sjálfstæðisflokksins vonist eftir að Bjarni sitji sem lengst.