Bjargaði lífi föður síns en gat ekki bjargað bróður sínum

5. júlí 2020
12:05
Fréttir & pistlar

Valgeir Helgi Bergþórsson lýsir því í þættinum Ástarsögur á Rás 1 þegar hann örlögin urðu þess valdandi að honum tókst að bjarga lífi föður síns. Hann hafði þurft að flytja tímabundið heim til foreldra sinna vegna myglusvepps í íbúð hans og var því til staðar þegar líf föður hans lá við.

„Einn daginn vekur mamma mig og segir að það sé eitthvað á seyði með pabba, hann hreyfi sig ekki og svari ekki þegar hún tali við hann. Ég hoppa fram úr,“ rifjar Valgeir upp. Þegar hann sá föður sinn varð honum ljóst að á honum var ekkert lífsmark.

Fann engan púls

„Ég finn að það er enginn púls. Pabbi er stór maður og ég gat ekki hreyft hann úr stólnum til að komast í betri stöðu því jafnvel þó ég sé stór er hann stærri. Ég byrja á að hnoða hann og mamma stendur til hliðar og spyr hvað hún eigi að gera. Ég öskra: Hringdu í 112.“

Aðeins ein hugsun var í huga Valgeirs á meðan á þessu stóð. „Það eina sem fer í gegnum hugann er ekki deyja. Ég öskraði það meira að segja á hann,“ segir Valgeir

Heyrði rifbeinin brotna

Á meðan sjúkrabíll var á leiðinni hnoðaði Valgeir föður sinn. „Ég hnoða og hnoða, heyri nokkur rifbein brotna og loks mæta þeir á svæðið.“ Föður hans var gefið stuð í bílnum og hann fluttur á bráðamóttökuna.

Faðir Valgeirs verður sjötugur á næsta ári og er við hesta heilsu. „Enn vinnandi meira að segja.,“segir Valgeir. „Það er súrrealísk hugsun að ef ég hefði ekki keypt mér þetta hús þá hefði ég hugsanlega ekki verið heima. Eins elskuleg og mamma er kann hún ekkert í skyndihjálp svo hún hefði ekkert getað gert.“ Það er því að miklu leyti Valgeiri að þakka að faðir hans lifði af.

Samviskubit yfir dauða bróður síns

Hann náði þó ekki að vera til staðar fyrir bróður sinn á hans náðarstund. „Ég er með samviskubit yfir að hafa ekki verið heima þegar bróðir minn deyr.“ Valgeir var á leið í brúðkaup á Korsíku þegar hann fékk símtal um að bróðir hans hafi látist.

„Ég er með samviskubit yfir því að hafa ekki verið heima þá. Ég hefði mögulega getað hjálpað honum,“ segir Valgeir. Það hefði þó líklega ekki verið mikið sem hann hefði getað gert. „Hann dó um miðja nótt, ég hefði líklega verið sofandi hvort eð er.“

Lenti undir í samfélaginu

Hann minnist bróður síns í þættinum. „Hann var vænsti maður sem lenti undir í samfélaginu. Var öryrki með flogaveiki á mjög háu stigi, búinn að fara í tvær eða þrjár heilaskurðaðgerðir til að reyna að stemma stigu við flogaveikinni,“ segir Valgeir.

„Hann var í Karlar í skúrnum sem er verkefni hjá Rauða Krossinum þar sem einstæðingar og þeir sem þurfa mannleg samskipti eða eru vinalausir hittast. Hann var í því og kominn á mjög góðan stað í lífinu, byrjaður að eignast vini og kunningja. Svo er hann bara farinn.“

Hægt er að hlusta á þáttinn hér.