Birtir ógeðfelld skilaboð: Ætlaði að nýta sér neyð einstæðrar móður

Á samfélagsmiðlinum Twitter fara nú fram heitar umræður um mynd sem Ólöf Tara Harðardóttir í Öfgum deildi af samskiptum konu sem hafði óskað eftir mataraðstoð á Facebook við karlmann sem bauð henni í kjölfarið 35 þúsund krónur í skiptum fyrir kynlíf.

„Myndi nu bida með þakka mér þetta er ekki frítt en vitl eyða 35k,“ segir maðurinn við konuna sem spyr hann svo nánar út í tilboðið og spyr hann hvort hann viti ekki örugglega að hann sé að senda einstæðri móður.

Fjölmargir hafa skrifað athugasemd við færsluna og segja það sorglegt að fólk geti ekki óskað eftir aðstoð án þess að vera áreitt með þessum hætti og fordæma manninn og þetta boð hans.

Vilborg Oddsdóttir hjá Hjálparstarfi kirkjunnar segir þetta ekkert nýtt af nálinni og að því miður hafi hún heyrt af svona misnotkun á fólki reglulega á sínum tuttugu ára ferli í hjálparstarfi.

„í gegnum tíðina hef ég alltaf vitað að stelpur sem koma til okkar hafa tímabundið verið í vændi, af mikilli neyð, og ég hef heyrt af því að konur hafi fengið húsnæði gegn kynlífi. Þetta er ekkert nýtt og hefur alltaf verið í gegnum tíðina,“ segir Vilborg.

Anna H. Pétursdóttir formaður Mæðrastyrksnefndar tekur í sama streng og Vilborg og segist reglulega hafa heyrt af því að konum sé boðið kynlíf í staðinn fyrir greiða eða aðstoð en að hún hafi aldrei séð svona samskipti áður.

Færsluna er hægt að sjá hér fyrir neðan.

Fleiri fréttir