Birtir bréf fyrrverandi nemanda Jóns Baldvins: „Lýst sem ólæknandi kynferðisglæpamanni“

25. janúar 2021
20:00
Fréttir & pistlar

Bryndís Schram, eiginkona Jóns Baldvins Hannibalssonar, segir ekkert hæft í því að eiginmaður sinn hafi áreitt nemendur sína kynferðislega í sundlaug á Bolungarvík vorið 1979. Hún segir í pistli á vef BB að þetta hafi verið glaður dagur þar sem Jón Baldvin hafi kvatt nemendur sína í Menntaskólanum á Ísafirði með dimmiteringarferð til Bolungarvíkur.

„Þann 11. janúar, 2019 – fjörutíu árum eftir þessa glaðværu kveðjustund við Djúp – varð skyndilega myrkur um miðjan dag, og á svipstundu var líf okkar hjóna komið á ruslahaug sögunnar, eins og hver annar mengandi úrgangur. Fallegar minningar fölnuðu á augabragði, og lífið missti lit,“ segir Bryndís. „Hvað gerðist? Daginn þann birtist í Stundinni þaulundirbúin atlaga að mannorði mannsins míns og mínu, þar sem honum er lýst sem ólæknandi kynferðisglæpamanni og mér sem meðvirkri druslu.“

Stundin ræddi við Sigríði Huldu Richardsdóttur, sem var nemandi í Menntaskólanum á Ísafirði á þessum tíma. Sigríður Hulda sagði Jón Baldvin hafi káfað á brjóstunum á sér og áreitt nemendur kynferðislega. „ Ég forðaðist fljótt að vera ein með honum. Þegar ég og skólasystur mínar vorum nýkomnar út í laugina í Bolungarvík, þá stökk Jón Baldvin allsnakinn út í laugina,“ sagði hún.

Bryndís segir að þegar frásögnin birtist hafi Jón Baldvin strax hringt í kennara og nemendur, enginn hafi kannast við það. „En þegar skólameistarinn spurði, hvort þeir væru reiðubúnir til að andmæla skrumskælingunni og segja söguna eins og hún var, komu vöflur á mannskapinn. Hópur nemenda bar saman bækur sínar. Og niðurstaðan varð sú, að enginn þorði að andmæla. Hvers vegna ekki? Af ótta við að verða sjálfir fyrir barðinu á ofsóknum öfgafeminista? Einn læknir í hópnum sagði, að biðstofan mundi tæmast, ef hann yrði opinberlega sakaður um að skjóta hlífisskildi yfir grunaðan kynferðisbrotamann.“

Hún birtir svo nafnlaust bréf eins nemendans.

„Ég man vel eftir dimmisjóninni 1979. Hún hófst með siglingu yfir í Súðavík þar sem Hálfdán sveitarstjóri (fyrrverandi skólabróðir í MÍ) tók á móti okkur á bryggjunni og bauð okkur til kaffisamsætis í mötuneyti frystihússins. Síðan var siglt yfir til Bolungarvíkur þar sem hópurinn fór í sund áður en haldið var til veislu heima hjá foreldrum Elíasar Jónatanssonar. Í sundlauginni var fólk farið að finna á sér og hlaupin ærsl í mannskapinn, bæði kennara og nemendur.

Kennararnir voru margir ungir að árum, sumir hverjir nánast jafnaldrar útskriftarnemanna. Þarna var til dæmis ungur kennari sem ærslaðist í stelpunum, kafaði undir þær í lauginni og kitlaði þær. Einhver hélt því fram að hann hefði gripið í bikiníbuxur á einni þeirra – ég veit ekki hvað satt er í því.

Hins vegar fannst mér vont að sjá, áratugum seinna, þegar þessir atburðir voru rifjaðir upp í blöðum – og þá í tengslum við ásakanir Aldísar í garð föður síns – að hegðun þessa unga manns skyldi vera yfirfærð á Jón Baldvin.

Það var alls ekki Jón Baldvin sem hamaðist í stelpunum í lauginni – heldur var það þessi umræddi og þáverandi kennari sem nú er ráðsettur maður – og engum dettur í hug, held ég, að orða hann við áreitni eða óviðeigandi hegðun gagnvart konum, svo ég viti. Þarna var vissulega vín á fólki og eitt og annað sem úrskeiðis fór. Þessi ungi kennari og annar til voru full uppteknir af námsmeyjunum.

Ég man þó ekkert eftir Jóni Baldvini í því samhengi, og ekki heldur eldri kennurunum, sem voru með í för, að þeir hafi neitt skipt sér af kvenfólkinu í sundlauginni.

Ég get ekki útilokað að einhver skólasystkini mín hafi upplifað eitthvað annað en ég eða séð þessi atvik í öðru ljósi.

Ég get bara vottað það sem ég upplifði og man.

Svona man ég þetta”.