Birgir Jónsson, Play, og Ingibjörg Ásta, Samkaupum, gestir Jóns G.

Hann verður hressilegur þátturinn hjá Jóni G. á Hringbraut á Hringbraut í kvöld en gestir hans að þessu sinni eru þau Birgir Jónsson, forstjóri Play, og Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir, markaðsstjóri Samkaupa. Jólaverslunin er komin á fullt eftir hressilegan svartan föstudag og útlit er fyrir góðan desember í fluginu.

Þáttur Jóns nefnist Stjórnandinn með Jóni G. og er á dagskrá kl. 19, 21, 23 í kvöld og endursýningar verða á tveggja tíma fresti eftir það til morguns.

Play er með þrjár Airbus vélar í notkun og mun bæta við sig þremur nýjum vélum fyrir vorið þegar Ameríkuflug félagsins hefst. Fjöldi farþegar hjá félaginu frá því í vor er kominn yfir 70 þúsund og skv. nýlegri frétt á Túrista hefur Play flutt fleiri farþega til Alicante og Kanaríeyja en Icelandair. Play er skráð á First North markaðinn í Kauphöllinni og er markaðsvirði félagsins um 17 milljarðar króna.

Það er handagangur í öskjunni í verslun landsmanna núna þegar aðventan gengur í garð. Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir, markaðsstjóri Samkaupa, segir að jólaverslunin fari vel af stað en Samkaup reka um 60 verslanir undir vörumerkjunum Nettó, Iceland, Krambúðin, Kjörbúðin og Samkaup strax.

„Við erum auðvitað mest í matvælum en sala á bókum og leikföngum í Nettó í jólavertíðinni hefur verið mjög góð undanfarin ár,“ segir Ingibjörg Ásta Halldórsdóttir.