Biður Siggu Dögg afsökunar: „…ég virkaði hrokafull og dónaleg“

Hanna Björg Vilhjálmsdóttir biður Siggu Dögg, kynfræðing, afsökunar, í færslu sem hún setti á Twitter í dag.

Í yfirlýsingu Hönnu Bjargar segir hún að hún sé miður sín og að frammistaða hennar hafi ekki verið góð.

„…ég virkaði hrokafull og dónaleg, ég axla fulla ábyrgð á því.“

Hún segir að henni þyki ömurlegt að hafa dottið í þann pytt sem hún var í og biður Siggu Dögg afsökunar og tekur fram að henni þyki, og hafi lengi þótt, það sem Sigga Dögg gerir flott og til fyrirmyndar.

Hún segir þó í lokin að gagnrýni hennar á viðhorf Siggu Daggar til kláms og kyrkinga í kynfræðslu standi og að henni þyki leitt að frammistaða hennar hafi afvegaleitt umræðuna frá þeirri staðreynd.

Færsluna er hægt að sjá hér að neðan.

Konurnar tókust á í Kastljósi í gær um kynfræðslu í grunnskólum og ræddu þar, meðal annars, kyrkingar sem Hanna Björg vildi meina að Sigga Dögg væri að kenna. Umræðurnar voru mjög heitar og eftir þáttinn birti Sigga Dögg myndir og færslu af sér grátandi en hún sagði þáttinn og viðhorf Hönnu Bjargar hafa tekið mikið á.

Fleiri fréttir