Besta göngu­leiðin að gosinu að mati Lækna-Tómasar: „Miklu meiri gas­hætta á ferðum í þetta skiptið“

Göngu­garpurinn og hjarta­skurð­læknirinn Tómas Guð­bjarts­son hefur birt upp­færða göngu­leið sem sýnir það sem hann telur bestu leiðina að gosinu í Mera­dölum. Þetta kemur fram í frétt Frétta­blaðisins.

Upp­færða leiðin sem Tómas vill vekja at­hygli á liggur frá suður­stranda­vegi í norður að Fagra­dals­fjalli og leiðir svo niður í átt að Mera­dals­hnjúk þar sem nýju gos­stöðvarnar eru stað­settar. Leiðina teiknaði hann inn á kort sem hann hafði áður gefið út í sam­starfi við Ferða­fé­lag Ís­lands.

Leiðin hefur nú einnig verið stikuð af Björgunar­sveitinni Þor­björn svo auð­velt er að fylgja leiðinni bæði nótt og dag þar sem stikurnar eru út­búnar með gráu endur­skini.

Mynd/TómasGuðbjartsson&FI

Kortið sem Tómas upp­færði var upp­runa­lega unnið í sam­starfi við Ferða­fé­lag Ís­lands og sýndi þá göngu­leiðir að gosinu í Fagra­dal.

Tómas segir að til­gangur kortsins hafi verið að auka öryggi þeirra sem vilja bera gosið augum en einnig til vekja at­hygli á þeim ör­nefnum sem leynast á svæðinu.

„En kortið var líka búið til í þeim til­gangi að beina fólki á­kveðnar göngu­leiðir svo gróðurinn myndi ekki skemmast. En kortið var unnið í sam­starfi við land­eig­endur á Hrauni,“ segir Tómas en hann er mikill á­huga­maður um göngur og úti­vist.

Kortið sem um ræðir er nú til á sex tungu­málum og hægt að nálgast það á vef Ferða­fé­lags Ís­lands hérna.

„það er svona QR kóði sem hægt er að nota til þess að nálgast PDF skjal á netinu. Svo treystum við bara því að fólk borgi þessa upp­hæð sem rennur á­fram til góðs mál­efnis. Þá getur fólk borgað fyrir af­not af kortinu og hlaðið því inn á síma. Það er líka hægt að nálgast kortið á skrif­stofu Ferða­fé­lags Ís­lands eða í úti­vistar búðum," segir Tómas og tekur fram að nýjasta út­gáfan verði svo birt á næstu dögum „þá fær fólk upp­færða út­gáfu á símann í gegnum QR kóðann," segir hann.

Mynd/TómasGuðbjartsson

Það sem ber þó að hafa í huga við val á göngu­leiðum er að vind­átt getur skipt miklu máli þar sem mikið gas og reyk leggur frá gosinu. „Göngu­leiðin fer al­gjör­lega eftir vind­átt og þessi leið sem ég er að mæla með hún miðast við norðan­átt“ segir Tómas og segir að­komuna að gosinu mjög til­komu­mikla ef þessi leið er farin “skil­yrðin í þessari norðan átt eru alveg stór­kost­leg því þú getur setið þarna í brekku sem er bara eins og hring­leika­hús og horft undan vindi.“

Veður­stofa Ís­land gaf ný­verið út spá­líkan fyrir gasmengun þar sem hægt er að kynna sér stefnu gasmengunar og þá vind­átt sem verður ríkjandi. Hægt er að nálgast spá veður­stofunnar hér.

Tómas segir þó að ef sunn­átt bresti á sé hægt að fara aðra átt sem liggur eftir Langa­hrygg og upp á Stóra-Hrút.

„Það er miklu meiri gas­hætta á ferðum í þetta skiptið þar sem þetta er bara miklu kröftugra gos“ segir Tómas en talið hefur verið að þetta gos sé í kringum 3-5 sinnum stærra en hið fyrra sem var við rætur Fagra­dals­fjalls.

Það sem er mikil­vægt að hafa í huga
Tómas telur að mikil­vægt sé að hafa á­kveðin at­riði í huga áður en haldið er af stað í átt að gos­stöðvunum.

„Þetta er tölu­vert lengra en í fyrsta gosinu“ segir Tómas „Þá voru þetta svona fjórir og hálfur kíló­metri sem ganga þurfti frá Suður­stranda­vegi að góðum út­sýnis­stað til að sjá yfir stærsta gíginn. Núna þarftu að ganga tölu­vert lengra eða átta og hálfan eða níu kíló­metra.“

Mynd/AntonBrink

Tómas bendir þá á að líkam­legt hreysti sé nauð­syn­legt til að ganga þessa leið „þú þarft að vera sæmi­legu formi til að fara þetta. Þetta er grýtt leið og þú ert að labba í hraun­kantinum og þannig þarftu að passa þig að mis­stíga þig ekki eða pompa niður um hraun­hellur.“

Annað sem Tómas segir að hafa verði í huga er klæðnaður „vera vel skóaður með húfu og vettlinga því í norðan áttinni þá verður mjög kalt þarna, sér­stak­lega um nótt,“ segir Tómas og bætir við " það er allt of mikið af fólki, þá sér­stak­lega út­lendingum sem eru allt of illa búnir.