Bergþóra segir Megas um að hafa brotið á sér: „Þegar ég hlustaði á lagið fylltist ég bæði af þvílíkum viðbjóði og reiði“

Bergþóra Einarsdóttir segir í viðtali við Stundina í dag að Megas, tónlistarmaður og skáld, hafi bortið á sér ásamt yfirmanni hennar 2004. Hún lagði fram kæru á hendur þeim árið 2010 en þá sagði lögregla brotið vera fyrnt.

Bergþóra segir í viðtalinu við Stundina að hún hafi síðar lesið textann við lagið Litla ljót, nafn sem Megas hafi kallað hana fyrir atburðinn, og séð þar hrópandi samsvörun við það sem hafi átt sér stað.

Hún segir brotið hafa átt sér stað á heimili yfirmanns síns á veitingastað þar sem hún vann. Þeir hafi báðir vitað að hún væri á viðkvæmum stað í lífinu, fram að því hafi hún álitið Megas vera vin sinn. Yfirmaður hennar hafi rifið hana úr buxunum.

„Ég fékk áfall, fraus og þorði ekki að gera neitt,“ segir hún í viðtalinu. „Það var eins og ég væri lokuð inni í sjálfri mér og að fylgjast með þessu utan frá. Ég vildi bara passa að þeir færu ekki inn í mig. Þú ert bara að reyna að lifa af. Þú veist ekki hversu langt þetta mun ganga. Mín leið til að lifa af var að halda fyrir kynfærin á mér.“

Daginn eftir hafi hún vaknað í aðstæðum sem voru „viðbjóðslegri en hún hefði nokkurn tímann getað ímyndað sér“, með tvo nakta gamla karla við hlið sér, segir í viðtalinu.

„Ég gaf aldrei samþykki fyrir því sem þeir gerðu og þetta var aldrei það sem ég vildi. Ég var notuð. Þeir tóku frá mér eitthvert sakleysi sem ég skildi að ég fengi aldrei aftur og það var rosalega sárt,“ segir hún.

Árið 2015 las hún textann við lagið Litlu ljót, hún segir að þegar hún hafi lesið textann hafi þyrmt yfir hana og samsvörunin í textanum við atburði þessa kvölds væri hrópandi. „Þegar ég hlustaði á lagið fylltist ég bæði af þvílíkum viðbjóði og reiði að ég get ekki lýst því. Ég hafði frétt af textanum árið 2015 og þá leið mér svolítið eins og ég hafi verið misnotuð aftur í öðru veldi,“ segir hún.

Hér má lesa textann við lagið:

Litla ljót

Komdu fljót litla ljót

lasin ertu með fleiðraðan fót

heppin stúlka að hitta á mig ég er í hjálparsveitinni og sprauta þig

l-í-ó-t liggðu flöt og krepptu hné,

l-í-ó-t glenntu þig svo sem gleiðust sé

ekki baun sárt leggstu alveg flöt og afslöppuð,

það þarf ekki að gera meir göt græjaðu þig sem gleiðasta

já uppá gátt ég sker bara á brókina

nú kemur sprautustálið stinnt eins og stýriflaug

enda óræk hint rennur smýgur alla leið inn

og para inn í sjálfan pestarsentralinn nú kemur serúmið séra ljót

og svo enn og aftur þú ferð ekki á fót

fyrr en orðin ertu vel hraust heyrirðu!

Ekkert nema sprautur gamanlaust

vanrækt ertu ljúfa löð

langar engan vegin til þess að þú sért glöð

þig vantar steinefni vesalings ljót það er jú völ á einu –

-hart það er enn sem grjót

Bergþóra segir að hún hafi ekki stigið fram fyrr af ótta við afleiðingarnar, bæði fyrir sig og þá. „Ég vona að fólk dæmi þá sem einstaklinga, ekki sem einhver ógeð þótt það sem þeir gerðu hafi verið ógeðslegt og þeir þurfa að gangast við því. Mín gjöf til þeirra er tækifærið til þess. Þeir þurfa þá allavega ekki að taka það með sér í gröfina.“