Benedikt óttast að veiran verði við völd til ársins 2030

Benedikt Jóhannesson, stærðfræðingur og stofnandi Viðreisnar, óttast að kórónuveiran verði með okkur mun lengur en margir vonast eftir – eða að minnsta kosti áhrif hennar.

Benedikt lýsir þessari skoðun sinni í aðsendri grein í Morgunblaðinu í dag og nefnir reyndar að þær takmarkanir sem fylgt hafa COVID-19-tímabilinu hafi komið sér ágætlega fyrir hann.

„Fjar­fund­ir henta mér ágæt­lega, þeir taka skemmri tíma og eru um­hverf­i­s­vænni en þeir gömlu. Mér fannst ágætt að vera einn á skrif­stof­unni, þegar öll­um var ráðlagt að vera heima og hinir fóru all­ir eft­ir því. Ég var hvergi ör­ugg­ari en þar.“

Benedikt tekur fram að frelsi sé mikilvægt og það sem fer verst með fólk séu ekki tímabundnar ferða- og samkomutakmarkanir, heldur skuldafjötrar.

„At­vinnu­leysi er ennþá mikið og verðbólga sú mesta í mörg ár. Ferðaþjón­ust­an kemst ekki á fullt á þessu ári. Ríki og sveit­ar­fé­lög eru rek­in með mikl­um halla. Krepp­an varð grynnri en ótt­ast var í upp­hafi, en hún gæti fylgt þjóðinni lengi,“ segir Benedikt en yfirskrift greinar hans er einmitt þessi: Verður veiran við völd til ársins 2030?

Hann bendir á að halli hafi verið á ríkissjóði árið 2019 þrátt fyrir hagvöxt og enga veiru og áætlanir gangi út á viðvarandi hallarekstri næstu árin með tilheyrandi skuldasöfnun.

„Skuld­ir hafa þann leiðin­lega eig­in­leika að þær þarf að borga. Nú heyr­ist það viðhorf að vext­ir séu svo lág­ir að skuld­ir skipti litlu. Einhverntíma kem­ur samt að því að þeir hækka. Þá verður vaxta­byrðin þyngri og minna eft­ir í þörf mál­efni en nú. Um þetta snýst næsta kjör­tíma­bil,“ segir hann.

Benedikt segir að landsmenn séu farnir að anda léttar því þeir telji sig sjá til lands í skammtímabaráttunni.

„En hætt er við því að um leið og sóttvarnalæknir hverf­ur af sviðinu taki seðlabanka­stjóri hans sess sem tíður gest­ur í frétt­um. Vel­ferð þjóðar­inn­ar til lengri tíma felst í því að skuld­ir séu hóf­leg­ar og rekst­ur hins op­in­bera sjálf­bær, án skatt­pín­ing­ar um langa framtíð. Nýt­um krepp­una til þess að bæta sam­fé­lagið, okk­ur og kom­andi kyn­slóðum til far­sæld­ar.“