Bendir til þess að stórhættulegur vegarkafli hafi orsakað banaslysinu

29. júní 2020
15:07
Fréttir & pistlar

Tveir létust og einn er á gjörgæslu eftir að mótorhjól og húsbíll lentu í árekstri á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi í gær en margt bendir til þess að slysið hafi orsakast af hættulegum vegarkafla. Rannsókn stendur nú yfir á slysstað þar sem Vegagerðin mælir við­nám á vegar­kaflanum sem var nýlagður þegar slysið átti sér stað.

Fólk sem kom að slysinu segir deginum ljósara að vegurinn hafi orsakað slysinu enda flughált jafnvel fyrir gangandi vegfarendur að fara þar um.

Sjá einnig: Varað við vegarkafla áður en umferðaslys átti sér stað: „Þetta malbik er dauðagildra“

Sjúkrabíll rann út í móa

Sigur­björn Þor­kels­son, sem var einn þeirra fyrstu til að koma að vettvangi, lýsti því í samtali við Fréttablaðið þegar sjúkrabíll rann út af á veginum. „Einn af sjúkra­bílunum sem á svæðið kom gat ekki stöðvað á þessum um­rædda sleipa vegar­kafla og hentist hann út fyrir veg og út í móa.“

Bílstjórinn hafi brugðist hárrétt við en það hafi vakið nokkurn óhug nærstaddra að jafnvel viðbragðsaðilar gætu ekki keyrt veginn öruggir.

Mótmæla Vegagerðinni

Sniglarnir samtök bifhjólafólks á Íslandi hafa boðað mótmæli sem fara fram á morgun fyrir utan aðalskrifstofu Vegagerðarinnar til að mótmæla hættulegum vegum. Formaður samtakanna, Þor­gerður Guð­munds­dóttir, sagði að nú væri nóg komið.

Eftir að hafa sent inn fjölda ábendinga um hættulega vegi vonast Þorgerður til að Vegagerðin fari nú að hlusta á fólk og sinna starfi sínu. „Á síðu Vega­gerðarinnar komi fram að stofnunin tryggi öryggi á vegum. Þetta er ekki öryggi,“ sagði Þorgerður í samtali við Fréttablaðið.