Bendir á að Síldarvinnslan hafi fengið margar milljónir sama dag og hún keypti Vísi: „Hljómar eins og súrrealískur brandari“

Indriði Þorláksson, fyrrverandi ríkisskattstjóri, skrifar í grein sem birtist í Fréttablaðinu í dag að með kaupunum á Vísi í Grindavík sé stærsta sjávarútvegsblokk landsins að kaupa auknar veiðiheimildir fyrir tugi milljarða króna. Engin verðmætaaukning muni hljótast af þessari fjárfestingu.

„Meint samlegðaráhrif, ef þau eru einhver, munu koma fram í lægri kostnaði t.d. lægri launum vegna fækkunar starfsfólks. Þau auka ekki verðmæti framleiðslunnar en skila e.t.v. meiri hagnaði í vasa eigenda útgerðarinnar,“ skrifar Indriði.

Hann segir samþjöppun veiðiheimilda ekki vera orsök vandans heldur afleiðingu hans. Samþjöppunin sem slík leiði til þess að auðlindarentan, 40-60 milljarðar króna á ári, renni í vasa færri sægreifa en fyrr. Með því að lækka hámark aflahlutdeildar um helming fjölgi þeim eigendablokkum sem skipti rentunni á milli sín en almenningur, eigandi auðlindarinnar, sé engu betur settur en áður.

Hann vísar í að þetta sé birtingarmynd „rentusóknar“ sem felist í því að fé er varið í að hafa áhrif á pólitískar ákvarðanir fremur en til viðskipta á markaði. Skilgreina megi „rentusókn“ svo að hún felist í fjárfestingu í starfsemi sem skapi fjárfestinum auknar tekjur án þess að verðmætasköpun hafi aukist.

Indriði segir auðlindarentuna renna beint eða óbeint í gegnum eignarhaldsfélög útgerðaeigenda til fjárfestinga í öðrum rekstri, tryggingarfélögum, skipafélögum, fjármálafyrirtækjum, fasteignafélögum o.s.frv. „Ef svo heldur fram sem horfir safnast eignarhald í öllum atvinnurekstri á landinu hröðum skrefum saman á þær fáu hendur sem stjórnvöld hafa þegar afhent fiskveiðiauðlind þjóðarinnar með enn vaxandi söfnun auðs og valds.“

Indriði segir það hljóma eins og súrrealískan brandara að „sama dag og Síldarvinnslan keypti aukna hlutdeild í auðlindarentu þjóðarinnar fyrir 31 milljarð króna – án þess að þjóðin fengi krónu í sinn hlut – birtist líka sú frétt að Síldarvinnslan hefði fengið 18,5 milljón króna styrk úr opinberum sjóði til að bæta orkunýtingu í verksmiðju.

Hægt er að lesa greinina í heild sinni hér.

Fleiri fréttir