Beggi skrifar opið bréf til spítalans: „Síðustu vikurnar í lífi móður minnar voru henni hreinasta kvalræði“

Guðbjörn Dan Gunnarsson, kallaður Beggi Dan, er sonur konu sem lést á Heilbrigðisstofnun Suðurnesja eftir að hafa verið á lífslokameðferð að óþörfu í ellefu vikur. Í bréfi sem hann skrifar til stjórnenda Landspítalans og birt er á vef Vísis lýsir Beggi síðustu dögum móður sinnar til þess að stjórnendurnir skilji hvaða lækni þeir réðu til starfa.

Landspítalinn sendi frá sér yfirlýsingu fyrir helgi þar sem segir að læknirinn sé í endurmenntunar- og þjálfunarferli, undir handleiðslu og nánu eftirliti sérfræðinga spítalans í lyflækningum.

Beggi segir að eftir að hafa tilkynninguna dragi hann þá ályktun að stjórnendurnir séu ekki með réttar upplýsingar og hafið þar af leiðandi gert mistök.

Hann segir að ellefu vikum fyrir dauða móður sinnar hafi hún verið lögð inn í hvíldarinnlögn. „Samdægurs var hún sett á lífslokameðferð sem fyrirskipuð var af Skúla Gunnlaugssyni. Ég vil að það komi skýrt fram að hún var ekki haldin neinum sjúkdómum eða kvillum sem ógnuðu lífi hennar,“ segir hann. „Skúli hafði ekki fyrir því að láta mömmu vita að hún væri að fara að deyja, hún hafði ekki hugmynd um þessa ákvörðun.“

Beggi kemur með óhuggulegar lýsingar á síðustu vikum hennar. „Síðustu vikurnar í lífi móður minnar voru henni hreinasta kvalræði. Sýkingar voru ekki meðhöndlaðar, ekki var haldið að henni vökva, alvarlegur bætiefnaskortur var virtur að vettugi auk þess sem risastór legusár sem gengu inn að beini fengu að grassera. Hún fékk drep í annað eyrað, hluti af því datt af,“ segir hann.

„Skúli, sá hinn sami og er nýlega byrjaður að vinna á spítalanum ykkar, lét dæla það miklu af slævandi lyfjum í móður mína að hún var oft algjörlega ófær um að tjá sig.“

Hann og systkini hans hafi gert ítrekaðar og alvarlegar athugasemdir við meðferðina. „Ég mun seint skilja hvers vegna Skúli er við störf hjá ykkur á þessum tímapunkti. Augljóslega á sjúkrahús að vera öruggur staður og því vona ég að þið gerið það eina rétta í stöðunni og víkið Skúla Gunnlaugssyni úr starfi á meðan niðurstaða fæst í þau grafalvarlegu mál sem nú eru til rannsóknar hjá lögreglu. Allt annað er óásættanlegt.“