Báru saman verð á Íslandi og Spáni: Segjast ekki ætla að flytja aftur heim til Íslands

Munurinn á dæmigerðri innkaupakörfu á Íslandi annars vegar og Spáni hins vegar er gríðarlegur. Þetta leiðir óvísindaleg rannsókn í ljós en niðurstöður hennar birtast í nýjasta tölublaði Mannlífs. Karfan á Íslandi var rúmlega 100 prósentum dýrari en sú spænska.

Borið var saman verð á ýmsum snyrtivörum og matvörum á Íslandi og á Alicante-svæðinu. Leiddu niðurstöðurnar í ljós að karfan á Spáni kostaði 13.523 krónur en á Íslandi kostaði sama karfa með sömu eða mjög sambærilegum vörum 27.887 krónur.

Í körfunum mátti meðal annars finna gríska jógúrt, rifinn ost, rjómaost, rúnnstykki, kjúklingabringur, nautahakk, ávaxtasafa, banana og bláber svo eitthvað sé nefnt. Aðrar vörur voru til dæmis rakakrem, tannbursti og andlitshreinsir.

Tekið er fram að ekki hafi verið um vísindalega rannsókn að ræða heldur óformlega könnun. Þessi mikli verðmunur sé væntanlega skýring á því hvers vegna öryrkjar og ellilífeyrisþegar freista gæfunnar á Spáni frekar en á Íslandi.

Í umfjöllun Mannlífs, sem Guðrún Gunnsteinsdóttir skrifar, segir meðal annars:

„Mannlíf ræddi við Íslendinga á Spáni sem sögðust aldrei flytja aftur heim, þar sem lífsbaráttan væri miklu léttari þar. Á móti kemur að launamunur er mikill á Spáni og Íslandi, en það er hópur í okkar landi sem lifir á örorkubótum og á ekki möguleika á því að kaupa sér fjölbreyttan og hollan mat ásamt því að standa skil á rándýrri húsaleigu.“

Hér má nálgast nýjasta tölublað Mannlífs. Verðkönnunin er á blaðsíðu 14.