Barnahjónabönd á Íslandi á annan tug

Frá árinu 1998 hafa 18 börn undir lögaldri gengið í hjónaband á Íslandi. Sótt var um alls 18 undanþágur frá 1998 til 2016 fyrir hjúskap hinna ólögráða einstaklinga og allar voru samþykktar af dómsmálaráðuneytinu. Alls hafa sautján stúlkur og einn drengur gengið í hjónaband með undanþágum íslenskra yfirvalda í hjúskaparlögum sem sett voru 1993 og leyfa frávik frá aldursmörkum. Flest barnanna voru 17 ára en tvær stúlknanna voru 16 ára. Síðast var undanþága veitt árið 2016.

Þessar upplýsingar eru meðal þess sem kemur fram í svari Sigríðar Á. Andersen þáverandi dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns utanflokka á Alþingi fyrir tveimur árum.

Andrés Ingi segir í þættinum 21 á Hringbraut í kvöld að ráðherra hafi í svari sínu sagt að hún hefði þegar sett af stað endurskoðun á undanþáguákvæðinu í 7.grein hjúskaparlaga. Með slíkum breytingum væri alfarið tekið fyrir barnahjónabönd. Ekki kemur fram í svarinu hverjum þessi börn gengu í hjónaband með.

Þrátt fyrir ítrekun á fyrirspurn sinni síðan þá og svari ráðherra um að á þessu þingi ætti málið að vera lagt fram hefur ekkert gerst og slíkt frumvarp er ekki á málaskrá þingsins núna.

Andrés Ingi hefur lagt fram frumvarp um alfarið bann við hjúskap barna eða breytingu á 7.grein hjúskaparlaga. Það má nálgast á vef Alþingis. https://www.althingi.is/altext/151/s/0432.html

„Nei, ég spurði ekkert að því“, segir Andrés Ingi um hvort hann viti eitthvað meira um þessi hjónabönd eða á hvaða forsendum undanþágurnar byggðust. „En við þekkjum það alveg frá löndum eins og vestanhafs ef ungt kærustupar slysast til að verða ólétt þá kemur oft þrýsingur frá foreldrunum um að barnið fæðist innan hjónabands“, bendir Andrés á en birtingarmyndirnar séu ólíkar og sú versta sennilega þegar eldri karlar taka sér ungar stúlkur.

Skilgreining Evrópuráðsins á barnahjónabandi er þegar að minnsta kosti annar aðilinn er undir átján ára aldri. Samkvæmt Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem lögfestur var hér á landi 2013 brjóta barnahjónabönd m.a. gegn réttindum barna til heilsu og verndar gegn ofbeldi. Enn fremur hafa allar Norðurlandaþjóðirnar breytt lögum sínum til að banna barnahjónabönd, nema Noregur og Ísland.