Telur baráttu Villa gegn slúðri hættulega siðmenningunni

Sif Sigmarsdóttir fjallar um slúður í vikulegum pistli sínum í Fréttablaðinu í dag.

Hún rekur söguna og kemst að þeirri niðurstöðu að barátta Vilhjálms gegn slúðri sé í raun barátta gegn siðmenningunni sjálfri.

Sif byrjar á dæmum um hið illa orð sem slúður hefur á sér. „Árið 2019 fór bæjarstjóri á Filippseyjum í herferð gegn lausmælgi í umdæmi sínu. Ramon Guico III gerði sér lítið fyrir og bannaði slúður í bænum Binalonan. Þeir sem gerðust sekir um að skiptast á sögum um nágrannann – hver var skuldum vafinn, hver átti í framhjáhaldi með hverjum – fengu sekt og urðu að sópa götur bæjarins eitt eftirmiðdegi.

Bæjarstjórinn er ekki eini krossfarinn sem hefur ásett sér að fægja almennan orðróm. Við Íslendingar eigum okkar eigin Ramon Guico III. Lögmaðurinn Vilhjálmur Vilhjálmsson II er ötull baráttumaður fyrir ómþýðri orðræðu. Hann hefur nú tekið upp á sína arma tónlistarmanninn Ingó Veðurguð sem „leitar réttar síns gagnvart þeim sem hafa farið óvarlegum orðum um hann á internetinu undanfarnar vikur“, eins og segir í frétt um málið.“

Að þessu sögðu bendir Sif á að þeir Ramon og Vilhjálmur gangi vafalaust hrekklausir fram í hreinsunum sínum og þótt baráttan gegn slúðri kunni við fyrstu sýn að virðast barátta góðs gegn hinu illa, komi hins vegar annað í ljós ef betur er að gáð að mati Sifjar. Hún færir rök fyrir máli sínu með dæmi:

„Fyrir 100.000 árum byggðu jörðina að minnsta kosti sex mismunandi afbrigði manna. Nú lifir þar aðeins eitt. Homo sapiens. Fyrir 70.000 árum átti sér stað stökkbreyting í heila Homo sapiens, sem gerði honum kleift að tjá sig með mun víðfeðmari hætti en aðrar dýrategundir. Með tungumálinu gat maðurinn skipst á upplýsingum um aðsteðjandi hættur, sem hjálpuðu honum að lifa af: Hvar lá ljón í leyni? Hvaða sveppategundir voru eitraðar?

Svo kann þó að vera að það hafi verið annars konar upplýsingagjöf sem olli því að maðurinn lifði ekki aðeins af, heldur varð að endingu drottnari jarðar.

Sagnfræðingurinn og metsöluhöfundurinn Yuval Noah Harari heldur því fram í metsölubók sinni, Sapiens, að lykillinn að yfirburðum mannkynsins hafi verið geta hans til að mynda stór samfélög, þorp, bæi og borgir. Í veröld þar sem samfélagið lá til grundvallar því að einstaklingurinn lifði af, var mikilvægara að vita hver í bænum átti í deilum við hvern og hver var heiðarlegur og hver ekki, en upplýsingar um hvar ljónið vappaði þá stundina. Styrkur hins viti borna manns fólst í hæfileika hans til að slúðra.

Harari er ekki einn um þá skoðun að slúður sé undirstaða mannlegs samfélags. Þróunarsálfræðingurinn Robin Dunbar hefur gert víðtækar rannsóknir á slúðri. Hann telur slúður hafa haft mikilvægu hlutverki að gegna þegar fámennir hópar veiðimanna og safnara urðu að stórum samfélögum fólks sem þekktist ekki innbyrðis. Ekki aðeins var slúður gagnlegt fyrir einstaklinginn sem fékk upplýsingar um hverjum var treystandi og hvern bar að varast, án þess að þurfa að hafa persónuleg kynni af viðkomandi. Slúður setti samfélaginu einnig leikreglur, svo að öllum var ljóst hverslags hegðun þótti ásættanleg og hvað þótti ekki í lagi.

Þar með er gagnsemi slúðurs þó ekki talin. Bianca Beersma, félagssálfræðingur við háskóla í Amsterdam, segir slúður veita aðhald. Hún stóð að rannsókn þar sem þátttakendur köstuðu teningi og unnu fé. Því hærri tölu sem þeir sögðust hafa fengið því hærri upphæð unnu þeir. Aðstæður voru með þrennu móti: 1) Ekki var fylgst með teningakastinu svo þátttakandi gat svindlað að vild. 2) Fylgst var með en trúnaði heitið. 3) Fylgst var með og þátttakanda sagt að upplýsingum um framferði hans gæti verið deilt með öðrum.

Í ljós kom að þótt fylgst væri með fólki svindlaði það ekkert síður. Þegar þátttakendur áttu hins vegar á hættu að framferði þeirra yrði á milli tannanna á fólki, snarminnkaði svindlið."

Sif endar pistilinn sinn með því að segja að þó svo að slúður þyki ekki vera fínt þá sé barátta gegn slúðri í raun barátta gegn siðmenningunni.