Baldvin Z viðurkennir mistök við gerð Svartra sanda: „Ég biðst afsökunar á þessu til allra áhorfenda“

Baldvin Z, leikstjóri sjónvarpsþáttanna Svörtu sanda sem sýndir eru á Stöð 2, viðurkennir í samtali við Sandkorn á vef 24.is að það hafi orðið mistök í framleiðsluferlinu. Þættirnir hafa fengið þónokkuð lof en margir hafa kvartað undan því að myrkrið í þeim sé svo mikið að ekkert sést og hljóðblöndunin þannig að það heyrist ekkert hvað persónurnar segja.

„Það skal tekið fram að það urðu smá mistök í ferlinu,“ sagði Baldvin.

Búið er að laga þættina í sarpinum hjá Stöð 2.

„Ég fór svolítið brattur inn í þessa vinnslu, vildi mikla dínamík og mikið bíómix. Við þurftum að lagfæra þessi mistök og þessi þáttur sem fór í loftið núna var kominn í gott stand.“

Hann biður áhorfendur afsökunar á þessu:

„Eitt leiddi að öðru, við sýnum svo um jólin og ég hugsaði bara hvað gerðist? Þannig að ég biðst afsökunar á þessu til allra áhorfenda Stöðvar 2, það er búið að laga þetta hér með og fyrstu þrír þættirnir verða komnir inn í hinum bestu hljóðgæðum.“