Baldur: Sleppum borgar­línu, höfum frítt í strætó og spörum milljarða

„Gerum Strætó gjald­frjálsan og föllum frá öllum á­formum um borgar­línu,“ segir Baldur Borg­þórs­son, vara­borgar­full­trúi Mið­flokksins, í pistli sem birtist á vef Vísis í dag. Þar færir Baldur sín rök fyrir því að það marg­borgi sig að sleppa því að leggja borgar­línu.

„Jafn ó­trú­lega og það kann að hljóma, þá má leiða líkum að því að spara megi sam­fé­laginu milljarða á milljarða ofan ár­lega með því einu að gera Strætó gjald­frjálsan,“ segir Baldur í grein sinni og bætir við að með því að sleppa borgar­línu geti þetta mark­mið gengið upp.

„Reiknings­dæmið er ekki ýkja flókið: Þrátt fyrir að tals­menn borgar­línu virðist hrein­lega ekki vita hvert rekstrar­form borgar­línu á að verða eins og dæmin sýna, (á glæru­sýningum eru ýmist lestar­vagnar teinar og til­heyrandi, lið­vagnar á hjól­börðum, eða að virðist venju­legir strætis­vagnar), þá liggur eitt ljóst fyrir: Lág­marks­kostnaður við upp­byggingu sjálfrar línunnar verður 100 milljarðar. Gæti farið í 200 milljarða. Eða 300 milljarða.“

Baldur segir að af fenginni reynslu eigi kostnaðar­á­ætlanir það til að tvö­faldast og jafn­vel þre­faldast og því væri ó­á­byrgt að gera ráð fyrir minna en 200 milljörðum.

Baldur bendir á að þetta sé einungis stofn­kostnaður, en þá eigi eftir að taka vagnana inn í dæmið. „Erfitt er að henda á reiður á þann kostnað, því ekki hefur fengist af­gerandi svar frá tals­mönnum borgar­línu hvort þar verði um að ræða lestar­vagna,spor­vagna lið­vagna eða að virðist venju­lega vagna. Hér getum við því aftur beitt meðal­hófinu og rífandi bjart­sýni og reiknað með tuttugu milljörðum.“

Baldur segir að þá sé eftir rekstrar­kostnaður borgar­línu og gerir hann ráð fyrir fjórum milljörðum þó tals­menn borgar­línu vilja meina að kostnaðurinn verði lægri. Baldur segir að með bjart­sýni og meðal­hófi sé þetta niður­staðan:

Stofn­kostnaður línu : 200 milljarðar

Stofn­kostnaður vagna: 20 milljarðar

Við­bótar rekstrar­kostnaður: 4 milljarðar

Til við­bótar kemur síðan fjár­magns­kostnaður sem nemur milljörðum á ári.

Baldur segir að rekstrar­tölur Strætó standi sér og í besta falli munu þær haldast á svipuðu róli á­fram eftir til­komu borgar­línu. Heildar­tekjur Strætó af far­gjalda­sölu séu um tveir milljarðar króna á ári, helmingi minni en við­bótar rekstrar­kostnaður borgar­línu einnar og sér. Hann leggur fram á­kveðnar til­lögur og vill að Strætó verði frekar gerður gjald­frjáls og fallið verði frá á­formum um borgar­línu.

„Þannig getum við fjölgað not­endum. Þannig getum við sparað 2 milljarða á ári vegna við­bótar rekstrar­kostnaðar borgar­línu. Þannig getum við sparað stofn­kostnað borgar­línu upp á 200 milljarða. Þannig getum við sparað 20 milljarða stofn­kostnað vegna farar­tækja hver sem þau verða. Þannig getum við sparað fjár­magns­kostnað upp á milljarða ár­lega. Í hundrað ár.“

Hér má nálgast grein Baldurs í heild sinni