Baldur hjólar í ís­lenskar verslanir: „Mis­notkun á út­sölum orðin að ó­stöðvandi skrímsli“

25. janúar 2021
13:57
Fréttir & pistlar

Baldur Björns­son, stofnandi og fyrr­verandi fram­kvæmda­stjóri Múr­búðarinnar, segir að margar ís­lenskar verslanir – hús­gagna­verslanir þá helst – veiði við­skipta­vini sína í gildru. Hann segir að margar verslanir séu með út­sölur og til­boð alla daga ársins. „En hvernig er það hægt?“ spyr hann í að­sendri grein á vef Vísis.

„Út­sala snýst jú um að selja vöru á lækkuðu verði frá fyrra verði. Há­mark út­sölu má vera 6 vikur, eftir það telst út­sölu­verðið fullt verð. Engu að síður eru sömu vörurnar aug­lýstar á út­sölu mánuðum og árum saman og „út­sölu­verðið“ er sí­fellt það sama,“ segir Baldur sem vísar í aug­lýsingar þar sem fram kemur að „út­salan sé í fullum gangi.

Hann segir að ef verðið er meira eða minna alltaf það sama, í hverju felst þá út­salan?

„Málið er ein­fald­lega að verslanir komast upp með þennan hókus-pókus leik og við­skipta­vinirnir ýmist fatta ekkert eða finnst bara á­gætt að láta spila með sig. Það er jú svo þægi­legt að rétt­læta inn­kaupin með því að segjast hafa fengið hlutinn á út­sölu. En hver er þá galdurinn að geta stöðugt verið með út­sölu án þess að selja á lækkuðu verði?

Baldur segir að sam­kvæmt reglu­gerð megi ekki aug­lýsa vöru á út­sölu nema hafa selt hana áður á fullu verði. „Eftir 6 vikur á út­sölu eða til­boði telst út­sölu­verðið „fulla“ verðið. Það sem verslanir gera - sér­stak­lega hús­gagna­verslanir - er að þær hætta að aug­lýsa við­komandi út­sölu­vöru eftir 6 vikur og fara yfir­leitt að aug­lýsa ein­hverja aðra. Þess vegna er út­salan alltaf í fullum gangi.“

Baldur segir að við þetta vakni spurningin hvort ein­hver sé svo vit­laus að kaupa vöru á „fullu“ verði eftir að hafa séð hana aug­lýsta á út­sölu vikum saman. „Tali nú ekki um að flestir eru farnir að átta sig á að um­rædd vara kemur fljótt aftur á út­sölu, eftir hóf­legan „hvíldar­tíma.“ Vissu­lega sýnir verð­merkingin í versluninni fulla verðið. En við­skipta­vinurinn þarf ekki annað en minnast á að varan hafi verið á út­sölu, þá býðst honum um­svifa­laust af­sláttur til að jafna til­boðs- eða út­sölu­verðið. Eða þá að af­slátturinn er boðinn að fyrra bragði. Með öðrum orðum, út­sölu­verðið er eina verðið sem varan er seld á. Út­sölu­verðið er fulla verðið.“

Baldur segir að þetta sé sér­stak­lega á­berandi í hús­gagna­verslunum sem eru með tak­markað vöru­úr­val. Hann nefnir engin á­kveðin dæmi eða á­kveðnar verslanir en segir að þær eigi það sam­merkt að hafa ekki nema á­kveðinn fjölda vöru­tegunda sem tekur því að aug­lýsa til að trekkja að við­skipta­vini.

„Til að láta Neyt­enda­stofu ekki góma sig passa þessar verslanir upp á 6 vikna út­sölu­tímann þegar þær aug­lýsa. Þess á milli er ein­fald­lega veittur af­sláttur. Ein hús­gagna­verslunin passar svo vel upp á að enginn borgi „fulla“ verðið að hún minnir við­skipta­vini á það í aug­lýsingum að spyrja um kjörin.“

Baldur segir að verslanir aug­lýsi helst ekki nú orðið nema af­slætti og til­boð. Þetta eigi við um allan skalann en hús­gagna­verslanir séu mest á­berandi. „Ber­sýni­lega virkar þetta á við­skipta­vini, annars væri þetta ekki megin­þemað í öllum aug­lýsingum. Aftur og aftur fellur við­skipta­vinurinn í gildruna - eða þá hitt, sem er lík­legra, að honum finnst bara nota­legt að taka þátt í þessari gervi-verð­lagningu til að plata sjálfan sig til að halda að hann hafi fengið gott verð og hugsan­lega rétt­læta kaupin. Hver stenst eigin­lega að fá eitt­hvað á út­sölu?“

Baldur er ekki sáttur við þetta og spyr hvort það sé í lagi að hækka verð eftir sex vikna út­sölu­tíma­bil, hafa það hærra í eina viku og aug­lýsa svo nýja út­sölu. Vísar hann í lög um eftir­lit með við­skipta­háttum og markaðs­setningu sem bannar allar slíkar blekkingar.

Hann gagn­rýnir að lokum Neyt­enda­stofu sem hann segir að hafi ekki and­lega eða fjár­hags­lega burði til að gæta hags­muna neyt­enda gagn­vart þessari gjald­fellingu út­sölu- og til­boða.

„Á vakt Neyt­enda­stofu er mis­notkun á út­sölum orðin að ó­stöðvandi skrímsli. Þau ör­fáu til­felli þar sem Neyt­enda­stofa hefur slegið á puttana á verslunum hafa ekkert að segja. Það segir sitt að nýjasta dæmið um að­gerðir Neyt­enda­stofu í þessum efnum sem kynnt er á vef­síðu stofnunarinnar er frá 2015.“