Báknið bólgnar

Forsætisráðuneytið auglýsti um helgina stöðu skrifstofustjóra á skrifstofu stefnumála í forsætisráðuneytinu lausa til umsóknar.
Við athugun kemur í ljós að skrifstofa stefnumála í ráðuneytinu er níu manna skrifstofa. Samkvæmt auglýsingunni er eitt hlutverk hennar að fylgjast með framfylgd stjórnarsáttmála. Í ljósi þess að Vinstri grænum tókst ekki að framfylgja neinu af sínum stóru stefnumálum á kjörtímabilinu, ekki einu sinni þeim sem voru fallega sett fram í stjórnarsáttmála, er vart við öðru að búast en að formaður Vinstri grænna vilji gera breytingar á yfirstjórn skrifstofunnar sem á að fylgjast með framfylgd stjórnarsáttmála.
Svo vekur það spurningar hvert er þá hlutverk skrifstofu yfirstjórnar í forsætisráðuneytinu, ef ekki að fylgja eftir stefnumálum ríkisstjórnar og framfylgd stjórnarsáttmála. Á skrifstofu yfirstjórnar starfa 22 starfsmenn. Og, nei, þeir eru ekki að bjástra við fjármál ráðuneytisins eða löggjafarmál vegna þess að á skrifstofu fjármála í forsætisráðuneytinu starfa 12 manns og á skrifstofu löggjafarmála starfa 15 manns. Ekki verður betur séð en að flest, ef ekki allt, þetta fólk sé vel menntað og vel launað eftir því. Er þá ótalin ein skrifstofa. Sem kunnugt er eru jafnréttismál á borði forsætisráðherra. Í ráðuneytinu er sérstök skrifstofa jafnréttismála með átta hámenntuðum sérfræðingum – sex konum og tveimur körlum, sem er, ef ekki brot á jafnréttislögum, þá í öllu falli ekki í anda jafnréttislaga.
En hvaða hlutverki gegnir skrifstofa jafnréttismála í forsætisráðuneytinu? Á Akureyri er starfrækt Jafnréttisstofa með átta starfsmenn (þar eru kynjahlutföll eilítið jafnari en á skrifstofu jafnréttismála því að sem karlarnir eru þrír en konurnar fimm). Jafnréttisstofa heyrir undir Forsætisráðherra og fær árlega um 200 milljónir á fjárlögum. Er virkilega þörf á bæði Jafnréttisstofu á Akureyri og skrifstofu jafnréttismála í forsætisráðuneytinu?
Alls eru starfsmenn forsætisráðuneytisins nú 60 talsins. Þegar Jóhanna Sigurðardóttir lét af embætti forsætisráðherra fyrir átta árum voru starfsmenn ráðuneytisins 35. Þegar Davíð Oddsson tók við embætti forsætisráðherra fyrir 30 árum voru starfsmenn forsætisráðuneytisins 15, eða jafnmargir og nú starfa á skrifstofu löggjafarmála í ráðuneytinu og sjö færri en starfa á skrifstofu yfirstjórnar ráðuneytisins. Á 30 árum hefur með öðrum orðum orðið fjórföldun á starfsmannafjöldanum. Hvað hefur breyst svo mjög í forsætisráðuneytinu að það kalli á slíka útþenslu? Er sömu sögu að segja úr öðrum ráðuneytum?
Raunar virðist útþensla yfirstjórnar íslenska ríkisins vera með öllu stjórnlaus. Fyrir 30 árum var reglan sú að hver þingflokkur hafði einn starfsmann á launum sem þingflokkarnir greiddu sjálfir. Jafnan var miðað við að laun starfsmannsins miðuðust við þingfararkaup – án allra aukagreiðslna sem þingmenn fengu. Sérfræðingar á nefnda- og lagasviði Alþingis voru nánast teljandi á fingrum annarrar handar. Ráðherrar höfðu einn aðstoðarmann og miðuðust launakjör hans við laun skrifstofustjóra í ráðuneyti sem þá, eins og nú, voru eitthvað ríflegri en föst laun þingmanna þrátt fyrir miklar hækkanir á þingfararkaupi nú síðustu árin.
Eitthvað hefur þetta kerfi bólgnað síðan. Nú eru 30 starfsmenn þingflokka og aðstoðarmenn formanna stjórnmálaflokka sem eru í stjórnarandstöðu á launum hjá Alþingi. Flokkarnir borga ekki lengur launin, heldur Alþingi beint. Á sama tíma hefur starfsemi nefnda- og lagasviðs Alþingis verið stóreflt og mjög verið fjölgað í starfsliði sviðanna. Aðstoðarmönnum ráðherra hefur fjölgað jafnt og þétt og eru nú minnst tveir slíkir í hverju ráðuneyti og fleiri ef með eru taldir allir flokksgæðingarnir sem ráðnir hafa verið í „ópólitískar“ stöður í ráðuneytum.
Í forsætisráðuneytinu starfa þrír fyrrverandi þingmenn af vinstri kantinum; Bryndís Hlöðversdóttir ráðuneytisstjóri, Róbert Marshall upplýsingafulltrúi og Steinunn Valdís Óskarsdóttir skrifstofustjóri. Ekki skal því haldið fram að þetta fólk sé óhæft í sínum störfum en bersýnilega hefur það ekki verið látið gjalda sinna pólitísku starfa. Þessir þrír fyrrum þingmenn af vinstri kantinum, sem nú eru embættismenn í forsætisráðuneytinu, eru fimm prósent starfsmanna ráðuneytisins. Fyrir þrjátíu árum hefði sá hundraðshluti kallað á 0,75 stöðugildi.
Hömlulaus útþensla forsætisráðuneytisins hefur nú gert það að verkum að hvergi er hægt að koma öllum þessum embættismönnum fyrir og því hefur verið ákveðið að reisa 1200 fermetra viðbyggingu við stjórnarráðið sem gnæfir yfir, kæfir og eyðileggur ásýnd stjórnarráðshússins litla, sem er innan við 300 fermetrar að grunnmáli. Verðugt verður fyrir nýjan stjórnarmeirihluta að afstýra því slysi eftir kosningar í haust.
- Ólafur Arnarson