Bærinn minn - Blönduós: Fáir bæir eru betur í sveit settir

26. maí 2020
17:56
Fréttir & pistlar

Það er ákaflega stutt í allar áttir þegar ferðamenn eru staddir á Blönduósi, eins og vel kemur fram í fyrsta þættinum af þáttaröðinni Bærinn minn sem hefur göngu sína á Hringbraut í kvöld klukkan 21:30.

Í þáttunum er sjarma og sérstöðu bæjarfélaganna hringinn í kringum landið gert hátt undir höfði – og þegar kemur að helsta bæjarfélaginu í Húnavatnssýslum er ekki erfitt að falla fyrir þeim menningar- og náttúruperlum sem þar er að finna innan bæjar og í nærsveitum. Þátturinn ber þess enda merki hvað Blönduós er upplagður áfangastaður ferðalanga, en þar er ekki einasta að finna mjög fjölþætta þjónustu hvað veitingar, gistingu, söfn og upplifun varðar, heldur eru náttúruperlurnar jafnt norðan og vestan við bæinn einstaklega skoðunarverðar – og má þar benda á Vatnsdalshóla, Þingeyrar, Borgarvirki, Hvítserk, Kolugljúfur, Kálfshamarsvík og Hrútey, en eftir dagsferð á þessa staði er ekki ónýtt að láta líða úr sér í einni persónulegustu og vinalegustu sundlaug landsins á Blönduósi þar sem kaffi er afgreitt í pottana og heilsusamlegur klórinn blandaður á staðnum. Ónefndur er gamli bærinn á vestubakkanum sem einstaklega gaman er að vafra um, skammt frá briminu þar sem sólarlagið er með því fegursta á Íslandi.

Ferðamannastaðurinn Blönduós er svo upplagður fyrir þá sem vilja hreyfa sig, hvort heldur er á hesti eða hjóli, á göngu upp um fjöllin í grennd eða í golfi á velli bæjarins sem er einstaklega skemmtilegur níu holu völlur – og þá er ekki hægt að skilja við staðinn án þess að minnast á veiðina í ám og vötnum allt í kringum þennan sögufræga verslunarstað.

Einungis tveggja og hálfs tíma akstur er frá Reykjavík til Blönduóss og klukkustund skemur tekur að koma þaðan frá Akureyri.

Þátturinn um Blönduós hefst klukkan 21:30 í kvöld.