Bæring furðar sig á tíðum dauðsföllum hér á landi: „Hvað er að gerast í okkar landi?“

Bæring Ólafsson, fyrrverandi forsetaframbjóðandi og forstjóri, hefur áhyggjur af háum tölum um fjölda dauðsfalla hér á landi það sem af er ári. Bæring gerir þetta að umtalsefni á Facebook-síðu sinni og veltir fyrir sér hvers vegna enginn er að kryfja málið til mergjar.

„Hvað er að gerast í okkar landi og engin umræða um þessa aukningu dauðsfalla sem er sýnd hér frá Hagstofu Íslands,“ segir Bæring og birtir graf máli sínu til stuðnings.

„Tala látinna hefur aukist um +35% nú á fyrsta ársfjórðungi 2022, eða 780 dauðsföll miðað við um 580 dauðsföll að meðaltali ársfjórðungana frá 2015-2021. Samtals eru þetta +200 umframdauðsföll bara á einum ársfjórðungi,“ segir Bæring sem bendir á að ef fram heldur sem horfir þá stefni í 800 umframdauðsföll fyrir árið 2022, eða um 3,120 í heildina. Hefur meðaltalið síðustu sjö ár verið 2.350 dauðsföll.

Bæring veltir fyrir sér hverju sætir.

„Eru stjórnvöld, heilbrigðisyfirvöld, fjölmiðlar og almenningur yfirleitt ekkert að skoða þetta og er þetta ekki túlkað sem neyðarástand og öllum bara alveg sama? Hvernig væri að hysja upp um sig buxurnar og kryfja þetta til mergjar og það strax og finna út hvað sé eiginlega í gangi og upplýsa almenning um þetta neyðarástand,“ segir hann og bætir við að ekki sé hægt að útskýra þetta með Covid-faraldrinum.

Fréttablaðið fjallaði um málið í apríl síðastliðnum og greindi frá því að óvenjumörg dauðsföll hefðu orðið í febrúar og mars síðastliðnum.