Bæjar­stjórinn sá ekki tölvu­póstinn - Bergur fékk loksins leið­réttingu eftir reiði­pistil í Mogganum

23. febrúar 2021
20:00
Fréttir & pistlar

„Þegar greinin birtist í Morgun­blaðinu kom í ljós að um­ræddur tölvu­póstur hafði farið fram hjá bæjar­stjóranum og kannast undir­ritaður einnig við að slíkt hafi gerst hjá undir­rituðum.“

Þetta segir Bergur Hauks­son lög­maður í grein sem birtist í Morgun­blaðinu um helgina.

Hring­braut sagði frá grein sem Bergur skrifaði í Morgun­blaðið og birtist þann 7. janúar síðast­liðinn. Þar lýsti Bergur heldur ó­trú­legu máli sem sneri að um­bjóðanda hans, manni sem stundar at­vinnu­rekstur í Hafnar­firði, en honum var gert að brjóta niður veggi sem hann átti ekki.

Til að gera langa sögu stutta hafði maðurinn keypt báta­skýli við Lóns­braut í Hafnar­firði. Búið var að steypa veggi á lóð í eigu Hafnar­fjarðar fyrir utan lóðir báta­skýlanna. Það var svo í febrúar í fyrra að eig­andi lóðanna fór að fá erindi frá byggingar­full­trúa um að fjar­lægja veggina – þó þeir væru ekki á lóð hans.

Málið fór alla leið fyrir Úr­skurðar­nefnd um um­hverfis- og auð­linda­mál sem komst að þeirri niður­stöðu að vinnsla Hafnar­fjarðar­bæjar væri haldin ann­mörkum og voru dag­sektir felldar úr gildi. Í bréfi sem Bergur sendi bænum í kjöl­farið, bæjar­stjóranum nánar til­tekið, kom fram að eig­andi lóðarinnar hefði orðið fyrir tjóni og ó­þægindum og þess krafist að bærinn greiddi bætur. Ekkert svar barst frá bæjar­stjóranum sem var til­efni þess að Bergur stakk niður penna og skrifaði um málið

Allt átti þetta sér þó eðli­legar skýringar eins og glöggt kemur fram í grein Bergs sem birtist um helgina.

„Hinn 7. janúar sl. var birt grein í Morgun­blaðinu þar sem undir­ritaður var að kvarta yfir stjórn­sýslu Hafnar­fjarðar og þar á meðal bæjar­stjórans. Meðal þess sem undir­ritaður kvartaði yfir var að bæjar­stjórinn virti hann ekki við­lits, sem kom í ljós að var mis­skilningur. Þannig er mál með vexti að rétt fyrir jól sendi undir­ritaður tölvu­póst til bæjar­stjóra Hafnar­fjarðar þar sem hann óskaði eftir að bæjar­stjórinn leið­rétti til­tekna stjórn­sýslu þar sem starfs­menn bæjarins höfðu ekki farið rétt að við af­greiðslu til­tekins máls. Bæjar­stjórinn svaraði ekki tölvu­póstinum og gerði undir­ritaður þá ráð fyrir að hann teldi ekki þörf á leið­réttingu. Þegar greinin birtist í Morgun­blaðinu kom í ljós að um­ræddur tölvu­póstur hafði farið fram hjá bæjar­stjóranum og kannast undir­ritaður einnig við að slíkt hafi gerst hjá undir­rituðum. Þegar bæjar­stjóranum var orðið kunnugt um málið skoðaði hún málið með starfs­mönnum bæjarins og komst að þeirri niður­stöðu að leið­rétta bæri þau mis­tök sem voru gerð. Öll gerum við mis­tök og þannig mun það verða á­fram en á meðan við erum til­búin að leið­rétta mis­tök ef mögu­leiki er á og læra af þeim erum við enn á réttri braut. Það átti við í þessu máli og verður að segja að stjórn­sýsla bæjar­stjórans hafi verið til fyrir­myndar“