„Auðvitað erum við ekki bananalýðveldi“

Hávær gagnrýni hefur myndast um ummæli Magnúsar Davíðs Norðdahl, oddvita Pírata í Norðvesturkjördæmi, um að Ísland sé „bananalýðveldi“ eftir að í ljós kom að kjörgögn kjördæmisins voru ekki geymd í innsiglum yfir nótt.

„Kjörgögn ekki innsigluð eftir talningu í morgun. Umboðsmenn lista ekki látnir vita af endurtalningu. Óinnsigluð kjörgögn geymd í opnum sal hótels í 6 klukkustundir milli talninga. Trúverðugleiki talningar og þar með kosninganna í NV er farinn. #bananalýðveldi,“ sagði Magnús á Twitter.

Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn, tók þetta upp og sagði: „Viltu ekki hafa fyrirvara á því sem þú segir þar til öll kurl eru komin til grafar? Hér ertu beinlínis að tala um kosningasvindl eða eitthvað. Það er ábyrgðarhluti að halda fram og alvarleg ásökun. Held að fólk ætti að anda í kviðinn.“

Ingvar S. Birgisson, lögmaður og fyrrverandi formaður SUS, segir ummælin Magnúsi til minnkunar:

„Framkvæmd kosninga þarf að vera upp á tíu og það þarf að skoða kyrfilega hvað fór úrskeiðis í NV. Að því sögðu þá er það frambjóðandanum til minnkunar að tala um Ísland sem bananalýðveldi.“

Fjölmiðlamaðurinn Helgi Seljan tekur undir það og segir:

„Þetta er rétt hjá Ingvari. Og auðvitað erum við ekki bananalýðveldi, í þessu samhengi. Ekkert bendir til svindls. Bara óttalegt sleifarlag, fúsk og vanvirðing við reglur. Bananahýðislýðveldi er því kannski meira réttnefni.“